145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[17:36]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013, með síðari breytingum. Inni í því eru varúðarreglan, almannaréttur, sérstök vernd, framandi tegundir o.fl. Þetta frumvarp var lagt fyrir Alþingi í haust, á 145. löggjafarþingi, og gert er ráð fyrir að það taki gildi 15. nóvember nk. Það er að mínu mati mjög ánægjulegt að ákveðið var að vinna frumvarpið út frá eldra frumvarpi um þessi efni en gera á því þó nokkuð miklar breytingar til að sætta menn í þessum málaflokki.

Ég vil byrja á því í ræðu minni áður en ég fer efnislega í þetta mál að mótmæla því sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir sagði í andsvari sínu áðan — hún var reyndar að yfirgefa salinn — að það væri kapítalismanum að kenna hvernig komið væri, að hann væri einhver blóraböggull. Þetta finnst mér ekki til þess fallið að við komumst upp úr skotgröfum vinstri og hægri pólitíkur í umfjöllun okkar um umhverfismál sem ég tel lífsnauðsynlegt að við gerum. Það er ekki hægt að gera stóran hluta þjóðarinnar, sem er kapítalísk og lifir eftir hinu kapítalíska hugmyndakerfi, að blóraböggli í þessu máli. Það er miklu betra til árangurs að við stöndum saman og reynum í sameiningu að róa til hafnar í þessu máli, umhverfismálum heimsins alls. Ísland getur ekki skorist úr leik.

Á fund umhverfis- og samgöngunefndar í morgun kom til okkar forstjóri Umhverfisstofnunar Evrópu sem við Íslendingar eigum aðild að í gegnum EES. Hann ræddi um stöðu Norðurlanda, sérstaklega Íslands, stöðu Evrópu í umhverfismálum og hann sagði meðal annars að á undanförnum fimm, sex árum hefði staðan svo gjörbreyst hvað varðaði hið græna hagkerfi eins og hann kallaði það að nú væri það sá staður í hinum skapandi heimi þar sem væri best að vera og að þar væri mestur hagvöxtur. Þetta er náttúrulega til marks um það hvernig þetta tvennt getur unnið saman. Hér vinnum við sem sagt með sjálfbærum hætti að því að varðveita þá jörð sem að við höfum og einnig stöndum við í því að hér verði hagvöxtur og framfarir og að lífsgæðin batni o.s.frv. en stefnum ekki í þveröfuga átt. Það eru mjög ánægjulegar fréttir.

Ég hvet okkur, íslensk stjórnvöld, til þess að vera engir eftirbátar í því að láta til okkar taka í þessum málum. Umhverfismál eru að verða einhver stærstu mál samtíma okkar, þau ná yfir gríðarlega stórt efni. Við erum að tala um utanríkismál, varnarmál, efnahagsmál, heilsufars- og velferðarmál. Við erum að tala um nánast allt sem lýtur að því að lifa góðu lífi í samfélaginu. Þess vegna er svo nauðsynlegur hluti af því að allt geti gengið hér eins og best verður á kosið að þessi mál séu sett mjög ofarlega á dagskrána enda er það að gerast úti um allan heim.

Eitt mikilvægasta atriðið til að svona megi verða og við Íslendingar komumst eitthvað áleiðis er að við ræðum málið á málefnalegri hátt að mínu mati. Mér hefur fundist allt of mikill skotgrafahernaður í flokkspólitísku litrófi í þessum málaflokki. Mér finnst þetta ekki eiga heima þar, þetta á heima þar sem bestu rökin sigra. Ég vil til dæmis tala um að markmið okkar Íslendinga í loftslagsmálum til ársins 2030. Þau voru kynnt í sumar og þá í aðdraganda Parísarfundarins margumtalaða sem verður haldinn í desember. Þar á sem sagt að ganga frá heimssamkomulagi um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda samkvæmt ákvörðun og samþykkt ríkisstjórnarinnar. Ísland mun leitast við að ná sameiginlegu markmiði með ríkjum ESB og Noregi um 40% minnkun losunar til 2030 miðað við árið 1990. Þetta eru ekki lítil tíðindi í efnahagslegu samhengi og ég sé ekki betur en að við Íslendingar verðum að fara að bretta upp ermarnar nú þegar til að láta þessi markmið til okkar taka.

Ég undirstrika það að umhverfismál snerta nú orðið öll svið stjórnmálanna. Þessi málaflokkur er orðinn svo viðamikill því að auðlindirnar okkar hér á jörðinni eru takmarkaðar og við viljum öll ganga um heimkynni okkar af virðingu og með fyrirhyggju. Við verðum að láta þessa hluti spila saman þannig að það megi verða almenningi til heilla, það er það sem skiptir mestu máli. Af því að hv. þm. Svandís Svavarsdóttir gerði græna hagkerfið að umtalsefni og að þar væri lítið að gerast vil ég benda á að í sumar áður en síðasta þingi lauk lagði iðnaðar- og viðskiptaráðherra fram skýrslu um græna hagkerfið þar sem einmitt var talað mjög skýrt um það hversu miklu máli það mundi skipta fyrir Ísland og íslenskan efnahag inn í okkar nánustu framtíð að stuðla til dæmis að orkuskiptum í samgöngum.

Þar er fyrir okkur Íslendinga eftir gríðarlega miklu að slægjast, ef svo má að orði komast. Við getum sparað þvílíkar fjárhæðir í innflutningi á vöru sem er jarðefnaeldsneyti. Við getum á sama tíma lagt okkar ríkulega af mörkum til þess að sporna við gróðurhúsaáhrifunum og getum nýtt okkar góðu sjálfbæru orkulindir okkur og öllum heiminum til tekna og verið að þessu leyti fyrirmynd þannig að ég mótmæli því að græna hagkerfið sé líflaust á Íslandi. Ég tel einmitt að það sé á fleygiferð en af því að ég hef stuttan tíma eftir langar mig í því sambandi að taka aðeins eitt lítið dæmi, veginn um Teigsskóg. Þar fannst mér kristallast mjög vel sá ágreiningur sem er oft og tíðum uppi um umhverfismál. Ég hafði mjög ákveðna skoðun á því máli sem mig langar aðeins til að rifja upp hérna. Þessi deila snerist um lagningu vegar í gegnum Teigsskóg í Austur-Barðastrandarsýslu. Hún var löng og erfið og ég veit ekki hvort hún hefur verið leidd til lykta, mér sýnist svo en hún var sérstaklega erfið fyrir heimamenn. Deilan snerist um umhverfisáhrif nýs vegarkafla í gegnum Teigsskóg sem er fallegur birkiskógur með fjölbreyttu náttúrufari og einn stærsti samfelldasti skógur á Íslandi af þessari gerð. Hann er mjög forn. Hið sama á við um að menn höfðu áhyggjur af áhrifum vegarins á fuglalíf á svæðinu í tengslum við þverun á Djúpadal og Gufudal. Ef við setjum þessi rök á vogarskálarnar má með hinu mótinu segja að nýi vegurinn um Teigsskóg átti að leysa af hólmi hættulegan fjallveg um Ódrjúgsháls og Hjallaháls, ég vona að ég fari rétt með staðarnöfn. Þann veg þurftu sex grunnskólabörn að fara með rútubíl klukkutíma hvora leið í öllum veðrum til að geta sótt skóla. Meiri hluti heimamanna talaði mjög skýrt, heimamenn vildu fá umræddan láglendisveg um Teigsskóg sem yrði mun öruggari en hálendisvegurinn. Auk þess mundi nýi vegurinn stytta leiðina um 20 kílómetra milli sveitanna. Þess vegna langaði mig til að hafa þetta dæmi til marks um það hversu mikilvægt það er að við verndum einstaka náttúru Íslands en verðum þó líka að gera okkur grein fyrir því að við lifum í þessu landi og góðar samgöngur eru höfuðatriði, t.d. fyrir hinar dreifðu byggðir. Stjórnmál snúast í mínum huga ekki síst um það að velja þá leið sem er réttust og skynsamlegust fyrir samfélagið í heild. Í þessu tiltekna dæmi sem hefur orðið mjög frægt í fjölmiðlum verð ég að segja að Teigsskógur verður fyrir það litlum „umhverfisáhrifum“ að ég get samþykkt að það sem er í húfi fyrir heimamenn og aðra sem þurfa að fara um svæðið sé mikilvægara.

Því er niðurstaða mín í þessu máli sú að það beri að ráðast í þessa vegalagningu. Ég gæti líka gert að umræðuefni mínu hér mikilvægi þess í ferðaþjónustu að hálendið okkar sé sem ósnortnast vegna þess að það kemur í ljós að 60% af þeim ferðamönnum sem hingað koma segja að það dragi þá helst til landsins. Þar erum við komin að öðrum efnahagslegum þætti sem hefur bein áhrif á afkomu þjóðarinnar og tengist umhverfisvernd og náttúrunni. Mig langar að láta það verða lokaorðin og ég hvet til þess að umræðan verði opnari og fjölbreyttari og fái þann sess í þjóðfélagsumræðunni sem hún á skilið. Hún á skilið mun hærri og veigameiri sess en nú er.