145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[18:00]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað fyrir prýðilegar umræður, ágætar ábendingar, hvatningu og hvaðeina. Mér finnst virkilega ánægjulegt að finna að umhverfismál eiga ríkan hljómgrunn hjá þingmönnum allra flokka svo við reynum nú að hífa okkur upp fyrir einhver flokkamál.

Sannarlega tek ég vel þeirri hvatningu sem hér hefur komið fram varðandi ýmsa þætti. En fyrst og síðast vil ég þakka því fólki sem hefur komið að undirbúningi og vinnu við þá frumvarpssmíði sem hér hefur verið hælt. Maður sér að með því að fara yfir málið og vinna vel með umhverfis- og samgöngunefnd hefur útkoman orðið góð eða ég get ekki fundið annað. Það voru fimm atriði sem stóðu út af sem menn ætluðu að skoða nákvæmar og betur.

Í ræðum manna hér í dag hafa tvö eða þrjú atriði aðallega verið til umfjöllunar. Það kemur í sjálfu sér ekkert á óvart að það sé varúðarreglan og sérstök vernd og síðan fór hv. þm. Róbert Marshall inn á almannaréttinn og þann breytta veruleika sem við stöndum frammi fyrir hvað varðar ferðamenn og ferðaiðnaðinn og að við skoðum þau verðmæti sem felast í íslenskri náttúru.

Það er ánægjulegt að í kjölfar þessarar umræðu hér mun ég mæla fyrir frumvarpi um innviðauppbyggingu og allt fellur þetta nú saman.

Hv. þingmaður sem hér talaði síðast spurði um varúðarregluna og reglugerð. Við bíðum auðvitað eftir því hvers konar lög verða samþykkt áður en við förum að semja reglugerð. Reglugerð tekur mið af því sem mun verða samþykkt hér 15. nóvember. Við höfum ákveðnar hugmyndir um það hvað eigi að koma fram og tíundum það í athugasemdum við frumvarpið að í reglugerð verða að koma fram kröfur um gæði upplýsinga sem við viljum fá varðandi ýmsar stjórnvaldsaðgerðir, ábyrgð framkvæmdaraðila á að afla upplýsinga og greiða fyrir þær, hvenær þessar upplýsingar allar þurfa að liggja fyrir, við þurfum að taka á sérstökum matsferlum o.s.frv. og stjórnvöld þurfa jafnvel að meta saman efnahagslegan ávinning og hættu á umtalsverðum neikvæðum afleiðingum þegar teknar eru stjórnvaldsákvarðanir sem varða náttúruna.

Ég tel varúðarregluna og þessi lög stórt skref í styrkingu náttúruverndar. Stórt skref. En auðvitað erum við ekki að gleypa heiminn. Þess vegna tala ég um skref. Þessi lög eins og svo mörg önnur sem við erum að kljást við munu eflaust fá endurskoðun innan ekki of langs tíma því það er ýmislegt að gerast.

Ég hvet menn til þess að taka höndum saman um að vinna hratt og vel eins og mér hefur fundist þeir þingmenn tala um sem hér hafa talað. Fyrir það er ég mjög þakklát vegna þess að við höfum ekki langan tíma, við höfum ekki nema rétt tvo mánuði til þess að vinna í nefndinni og fá umsagnir.

Hér hefur verið komið inn á ýmis atriði. Menn hafa farið aftur til baka og útskýrt vinnuna dálítið langt aftur en það er ekki nema allt gott um það að segja. Sumir tala einnig um að umhverfismál njóti ekki sannmælis hér eins og þau hafi gert áður. Í mínum huga fléttast umhverfismál í raun inn í öll önnur mál. Við sjáum það ef maður talar við fólk í öðrum löndum að það horfir mjög til Íslands og hvað við erum framarlega varðandi umhverfismál, framarlega í loftslagsmálum vegna okkar endurnýjanlegu orku og fleiri atriða sem við höfum, það er horft til þess hvað við erum framarlega í þessu. En auðvitað má gera margt betur.

Umhverfismál eru í mínum huga þannig fléttulist eins og þegar maður byrjaði að ræða jafnréttismál, vegna þess að umhverfismál þurfa að vera á þeim skala að það verður að gæta svo margra hluta. Auðvitað tekur þetta frumvarp mið af því að það var unnið með athugasemdir frá fjölmörgum aðilum og rétt að taka tillit til þeirra. Ég vona að menn fari ekki að gera of viðamiklar breytingar, en það er sjálfsagt að nefndin gefi sér samt þann tíma að fara yfir þessi atriði. Mesta umræðan hér hefur verið um þessi tvö meginmál, varúðarregluna og sérstaka vernd, og lítils háttar farið inn á almannaréttinn. Ég vona að við sjáum niðurstöður umhverfis- og samgöngunefndar koma hingað innan tíðar.