145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

uppbygging innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

133. mál
[18:19]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýra framsögu um málið. Þó verð ég að segja að mér finnst eftir að hafa tekið þátt í vinnu nefndarinnar síðast ekki alveg skýrt hvar við erum stödd í þessari miklu áætlun og skipulagsgerð sem við höfum í landinu. Við erum með fullt af áætlunum en það sem ferðaþjónustan bíður eftir núna og náttúran og uppbyggingarstarfsemi og annað slíkt er að það sé einhver stefna þrátt fyrir alla þessar áætlanir sem við höfum.

Þess vegna vil ég spyrja ráðherrann hvort það hafi verið skoðað hvort hægt sé að nýta þá vinnu sem sveitarfélögin hafa unnið í samráði við flestar þær stofnanir sem eiga að koma að innviðaáætluninni. Þá vil ég bara byrja á að nefna landsskipulagsstefnu. Svo eiga mörg svæði að vera komin með svæðisskipulag þar sem sveitarfélögin yfir stærra svæði vinna mikið saman. Svo erum við með aðalskipulag og deiliskipulag. Hvernig er hægt að hjálpa sveitarfélögunum til þess að vinna þessa skipulagsvinnu hraðar og þá í meira samráði við aðra til þess að koma málunum í hraðari framkvæmd? Við stöndum frammi fyrir því núna að fjármunir sem til eru í Framkvæmdasjóði ferðamannastaða komast ekki út úr sjóðnum vegna skorts á skipulagsmálum og að teknar séu ákvarðanir og ég óttast að við séum að fara að flækja það enn þá meira.

Svo má ekki gleyma að nefna samgönguáætlun sem er unnin í tengslum við skipulagslög. Samgöngumálin eru einn stærsti þátturinn í því að dreifa ferðamönnum og vernda náttúruna gegn utanvegaakstri og fleira slíkt. Ég held að samgöngumálin sé eitt stærsta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir í ferðaþjónustunni nú.