145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

uppbygging innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

133. mál
[18:26]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra Sigrúnu Magnúsdóttur fyrir framsöguna um þetta ágæta mál. Ég held að það veiti ekki af að taka dálítið hraustlega á varðandi áætlanagerð og uppbyggingu vegna ferðamennsku. Mig langar til þess að inna ráðherrann eftir því hvort ekki væri bagalegt, af því að við höfum rætt töluvert á vettvangi þingsins um friðlýsingar eða öllu heldur skort á friðlýsingum í samræmi við lög í landinu, eða hvort það verði ekki ákveðin hindrun í þessari vinnu að friðlýsingavinnan gangi svo seint? Friðlýsing á við um ýmis svæði sem eru eftirsótt af ferðamönnum sem þarf að fara í friðlýsingu á og uppbyggingu á til þess að vernda. Mun það ekki hamla þeirri vinnu að við höfum ekki unnið heimavinnuna þegar kemur að friðlýsingum á mikilvægum náttúruperlum í landinu?