145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

uppbygging innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

133. mál
[18:27]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alltaf bagalegt að hafa ekki yfir nægjanlegu fjármagni að ráða. Ég get tekið undir það. Liður í þessu frumvarpi er einmitt að kalla eftir föstu fjárframlagi ár hvert, það er eiginlega meginþunginn í frumvarpinu, að þetta frumvarp um innviði, innviðauppbyggingu verði að veruleika og eins og heiti þess ber með sér ætlum við að byggja eitthvað upp. Til þess þurfum við fjármagn. Það verður að setja peninga inn í fjárlög á Alþingi ár hvert til þess að byggja upp ferðamannastaði og svæði. Áður en við getum nýtt það fjármagn þarf að skilgreina betur staðina, flokka, hér vantar göngustíga, hér þarf að byggja brú, eða hvað annað við þurfum að gera.

Varðandi friðlýsingar sé ég ekkert að það hamli. Við erum með margar friðlýsingar á landinu. Það sem kannski vantar er verndar- og sóknaráætlun, þessi kortlagning. Við fengum þó um 18 milljónir í þessu frumvarpi núna til að setja svolítið meiri kraft í að geta unnið þær. En ég segi: Fyrst og fremst þarf að fá þetta frumvarp samþykkt svo að við fáum föst og örugg fjárframlög á hverju ári.