145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

uppbygging innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

133. mál
[18:35]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég var kannski ekki að spyrja um efnislega niðurstöðu þingsins að því er varðar landsskipulagsstefnuna, heldur miklu frekar stöðu stefnunnar gagnvart því sem hér er til umræðu og maður hefur af því áhyggjur í sjálfu sér að þessum skógi af áætlunum og verkefnum sem sveitarfélögum og öðrum þeim aðilum sem koma að er ætlað að skilja og þræða sig um. Það er því í sjálfu sér umhugsunarefni hvort þetta verkfæri bæti í raun einhverju við.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra til viðbótar þar sem við höfum verið svolítið mikið að fjalla um uppbyggingu og innviði, að við höfum kannski ekki í nægilega ríkum mæli talað um það að stjórnvöld tryggi gæði þeirrar vinnu sem fer fram við uppbyggingu innviða og að hugsanlegt sé að á tilteknum friðlýstum náttúruverndarsvæðum séu innviðir óráð (Forseti hringir.) vegna þess að þeir gangi þá á náttúruverndargildi viðkomandi svæða.