145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

vinnubrögð í atvinnuveganefnd.

[10:33]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég kem hingað upp til þess að gera athugasemdir við vinnubrögð atvinnuveganefndar þar sem ég er varaformaður. Þar var fundur í morgun þar sem fjallað var um það málefni að verkefnisstjórn rammaáætlunar væri ekki að vinna innan lagaramma rammaáætlunar. Ég hafði óskað eftir því að á fundinn kæmu ekki bara eins og formaður óskaði eftir tíu aðilar úr orkugeiranum til að kvarta yfir vinnubrögðum nefndarinnar heldur kæmu líka fulltrúar frá umhverfisgeiranum. Undir það tók þingmaður Bjartrar framtíðar, Heiða Kristín Helgadóttir. Við því var ekki orðið.

Þessi draugagangur sem er kominn aftur inn í atvinnuveganefnd er óboðlegur fyrir vinnu þingsins. Það er ekki boðlegt hvernig vinnubrögðin eru þar, að það sé verið að grafa undan trúverðugleika verkefnisstjórnar. Hæstv. umhverfisráðherra er nýbúin að lýsa yfir trausti á verkefnisstjórn. Hvers lags vinnubrögð eru þetta? Ég vil að hæstv. forseti skoði þetta vinnulag nefndarinnar.