145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

vinnubrögð í atvinnuveganefnd.

[10:35]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson talaði um það sérstaklega undir stefnuræðu forsætisráðherra að nú væri komið að því að koma sér upp úr skotgröfunum og fara að vinna hér málefnalega. Í millitíðinni gerðist það svo að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra lýsti sérstökum stuðningi við störf verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Við sjáum það núna að hv. þm. Jón Gunnarsson fer í það skipulega að grafa undan trúverðugleika rammaáætlunar og verkefnisstjórnarinnar. Þetta er grafalvarlegt mál, virðulegur forseti, auk þess sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir og hv. þm. Heiða Kristín Helgadóttir óskuðu eftir því að um yrði að ræða sameiginlegan fund með umhverfis- og samgöngunefnd, enda heyrir rammaáætlun undir umhverfisráðherra og þar með undir umhverfisnefnd þingsins. Hvaða vinnubrögð eru þetta, virðulegur forseti?