145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

vinnubrögð í atvinnuveganefnd.

[10:44]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég er að reyna að átta mig á því hversu mikilli móðgun ég á að koma mér upp akkúrat núna. Mér fannst ég vera að koma af mjög góðum og gagnlegum fundi og ég tók algjörlega undir þau sjónarmið sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir kom fram með á síðasta fundi okkar í atvinnuveganefnd um að þarna ættu að vera fulltrúar frá náttúruverndarsamtökum. Mér er í raun og veru fyrirmunað að skilja hvað það hefði eyðilagt að bæta við einni til tveimur manneskjum á þann fund þar sem voru hvort sem er mjög margar manneskjur og hefði bara gert fundinn betri og sleppt okkur öllum við þessa uppákomu.

Ég fagna því þó að fundurinn var opinn fjölmiðlum sem mér finnst mjög mikilvægt og stórt skref í átt að því að upplýsa fleiri um það sem fram fer á nefndarfundum. Almennt held ég að allt sem leiði okkur að þeim stað þar sem við forðumst svona furðulegar uppákomur eins og núna séu af hinu góða. Ég skil ekki þau sjónarmið að tvær til þrjár manneskjur hefðu gert útslagið um það að þessi fundur hefði verið of fjölmennur.