145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

vinnubrögð í atvinnuveganefnd.

[10:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Sá veldur miklu sem upphafinu veldur og í öllum tilvikum hefur það verið ríkisstjórnin og þá sérstaklega formaður atvinnuveganefndar sem hefur hafið ófriðinn um þessi mál. Það má fletta spjöldum sögunnar í þeim efnum, það kemur í ljós.

Lögin sem hér um ræðir heyra undir umhverfisráðherra. Rammaáætlun er á verkefnasviði umhverfisráðherra samkvæmt forsetaúrskurði um verkaskiptingu innan Stjórnarráðs Íslands. Það er hlutverk umhverfisráðherra að sjá um að verkefnisstjórn fari að lögum og það hefur ráðherra gert, lýst fullu trausti á verkefnisstjórn og lýst því yfir að hún vilji gefa verkefnisstjórn vinnufrið. Atvinnuveganefnd hefur ekkert umboð á þessu málasviði, hún hefur það ekki. Og þá hefði verið lágmark að vinna að undirbúningi fundarhalda í samstarfi umhverfis- og samgöngunefndar og atvinnuveganefndar ef menn vildu fara eitthvað inn í þessi mál, sem mjög má draga í efa að þjóni nokkrum uppbyggilegum tilgangi því að það sem málið snýst nú um er að verkefnisstjórn fái vinnufrið. Það er honum (Forseti hringir.) sem hv. þingmaður, ófriðarhöfðinginn, hv. þm. Jón Gunnarsson, er að reyna að spilla.

Svo legg ég til að hann fái hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur með sér í þennan sérstaka rannsóknarrétt þannig að við sameinum alla lögspekikrafta þingsins í einni nefnd, hv. þingmenn Jón Gunnarsson og Vigdísi Hauksdóttur. (Gripið fram í.)