145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

vinnubrögð í atvinnuveganefnd.

[11:00]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að segja að það er ekkert athugavert við það að þingnefndir kalli til sín aðila til að fá fram sjónarmið um þætti sem komið hafa fram varðandi rammaáætlun, vinnu verkefnisstjórnar o.s.frv. Það er ekkert athugavert við það og fundurinn var meira að segja opinn fjölmiðlum þannig að það er ekki hægt að segja að þar hafi neitt verið fyrir luktum dyrum. Það sem mér finnst rétt að gera athugasemd við hér er þegar þeir þingmenn, stjórnarliðar, sem boða til slíks fundar, hafa hann opinn fjölmiðlum til að fá fram umræðu, eru kallaðir ófriðarhöfðingjar, jafnvel látið að því liggja að þeir séu múrmeldýr og annað því um líkt. Við það finnst mér rétt að gera athugasemd og ég geri það hér við hæstv. forseta. Ég bið okkur öll um að gæta orða okkar vegna þess að það er ekkert athugavert við það sem gert var hér í morgun. Það var boðað til opins fundar í atvinnuveganefnd þar sem farið var (Forseti hringir.) yfir fram komnar athugasemdir og ekkert annað hefur gerst. Það er engin ástæða til þess að kalla menn ófriðarhöfðingja eða múrmeldýr.