145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

vinnubrögð í atvinnuveganefnd.

[11:01]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég lýsi einfaldlega undrun minni á þeirri stöðu sem upp er komin í þingsal þegar hæstv. iðnaðarráðherra kemur í ræðustól og talar um nauðsyn lagabreytinga á málefnasviði sem heyrir undir annan ráðherra. Og vegna þess að ég held að stjórnmálin væru betri ef menn stæðu með félögum sínum finnst mér átakanlegt að sjá þann skort á samstöðu framsóknarmanna með umhverfisráðherra sínum sem birtist í taktföstum gangi þeirra hér með sjálfstæðismönnum í aðför að hæstv. umhverfisráðherra.

Mér þótti mikill bragur að því þegar umhverfisráðherra steig fram um daginn og sagðist ætla að bíða niðurstöðu verkefnisstjórnar. Hún sýndi þar með vilja til þess að skapa víðtæka sátt í þessu máli og það er hróss vert. En það er ömurlegt að sjá hæstv. iðnaðarráðherra reyna að grafa undan henni með tilstyrk sinna eigin flokksmanna og framsóknarmanna í þingsal. Það er dapurlegt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)