145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

vinnubrögð í atvinnuveganefnd.

[11:04]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er verið að ræða fundarstjórn forseta en að venju frá síðasta þingi er þessi liður undirlagður efnislegri umræðu um rammaáætlun. Ég held að það þurfi að fara að skoða vinnubrögð þingsins í þessu máli. Hér er brostið á rammamálæði eina ferðina enn, hér er þessi liður misnotaður eina ferðina enn.

Virðulegi forseti. Þingið hefur svo sannarlega komið saman og það er alveg hreint með ólíkindum hvernig stjórnarandstaðan getur misnotað dagskrárliði þingsins til þess að ræða rammaáætlun, en svo þegar rammaáætlun er sett á dagskrá þingsins er ekki hægt að ræða hana.

Virðulegi forseti. Ég skil ekki lengur hvað þetta fólk sem situr í stjórnarandstöðunni vill með þessum málflutningi fyrir utan allan (Forseti hringir.) óhróðurinn og illmælgina hér um einn þingmann sem er hv. þm. Jón Gunnarsson. Það er þessu fólki til háborinnar skammar. (Gripið fram í.)