145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

samgönguáætlun, afkoma sveitarfélaga.

[11:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það eru tvö efni sem ég vil aðeins taka upp við hæstv. innanríkisráðherra. Fyrri spurningin er einfaldlega sú hvenær von sé á því að hæstv. ríkisstjórn geri næstu tilraun sína til að fá afgreidda samgönguáætlun. Eins og kunnugt er hefur þessari ríkisstjórn enn ekki tekist að afgreiða samgönguáætlun. Það er langt liðið á kjörtímabilið og málaflokkurinn virðist sæta miklum afgangi.

Aðallega vil ég þó ræða við hæstv. innanríkisráðherra um viðhorf eða afstöðu hæstv. ráðherra til þeirrar umræðu sem nú er um versnandi afkomu, því miður, sveitarfélaganna. Það er alveg ljóst að afkoma þeirra, sérstaklega þeirra stóru, versnaði á síðasta ári. Það er þungt hljóðið í sveitarstjórnarmönnum núna eins og við heyrum í aðdraganda þess að þeir halda fjármálaráðstefnu sína og það er vaxandi þrýstingur á að tekjuleg samskipti ríkis og sveitarfélaga verði endurskoðuð í þá átt að styrkja stöðu sveitarfélaganna, skiljanlega. Ekki bætir úr að sum sveitarfélög eru í miklum vanda vegna kostnaðar við að veita þjónustu við fatlaða sem þau yfirtóku með samningum frá ríkinu og ekki hefur fengist botn í. Svipað mætti reyndar segja um deilur um tónlistarfræðslu. Margt brennur á sveitarfélögunum um þessar mundir og þau horfa fram á versnandi afkomu þannig að formaður þeirra boðar nú að ef ekki verði einhver breyting á þá stefni í niðurskurð og harðar aðgerðir hjá sveitarfélögunum til að ná endum saman.

Þess vegna er nærtækt að spyrja hæstv. innanríkisráðherra: Styður hæstv. innanríkisráðherra það að tekjuleg samskipti ríkis og sveitarfélaga verði endurskoðuð til styrktar afkomu sveitarfélaganna?

Í öðru lagi: Finnst hæstv. ráðherra sanngjarnt að ríkið lækki skatta, berji sér á brjóst og hælist um að geta það, jafn óskynsamlegt og það er í efnahagslegu tilliti í þenslunni, á sama tíma og sveitarfélögin eru svelt? Er það skynsamleg ráðstöfun tekjustofna í landinu að ríkið sé að lækka (Forseti hringir.) sínar tekjur en sveitarfélögin búi við versnandi afkomu á meðan án þess að þeim sé mætt á nokkurn hátt?