145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

kjarasamningar lögreglumanna.

[11:21]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það sem hv. þingmaður segir um mikilvægi lögreglustarfsins og þess mikilvæga hlutverks sem lögreglan gegnir í landinu. Við þökkum auðvitað fyrir það mikilvæga starf, um það þarf ekki að deila, ég held við séum öll sammála um það.

Auðvitað er ég þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að við náum samningum við lögreglumenn. Það að þeir hafa ekki verkfallsrétt þýðir að menn þurfa að nálgast málin með þeim hætti, þeir fórna honum í sjálfu sér fyrir þetta mikilvæga starf sem þeir veita og að vissu leyti þarf það að koma fram í þeim samningum sem við lögreglumenn eru gerðir.

Ég veit að þessi mál eru í vinnslu hjá hæstv. fjármálaráðherra sem fer með samningsumboð fyrir hönd ríkisins. Við komum ekki að því í innanríkisráðuneytinu. Ég veit það líka að menn líta þar til þeirrar niðurstöðu sem varð í gerðardómi og hvað þeir segja um það sem lýtur að séraðstöðu þeirra, að þeim samningum verði lokið. Það snýr líka að samskiptum við atvinnulífið í landinu hvernig gengið er frá úrlausnum í samningamálum. Nú er ég ekki sérfræðingur í því hvernig frá þessu öllu saman er gengið, en ég hygg að þetta sé með þessum hætti.

Ég mun að sjálfsögðu eins og ég hef gert tala máli lögreglunnar, bæði vegna kjara hennar og almennt vegna umbúnaðar hennar og get þess vegna tekið undir það sem hv. þingmaður segir að það sé mjög mikilvægt að þessu fari að ljúka. En ég hef enga ástæðu til að ætla annað en það muni gerast, það muni ganga farsællega.