145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

börn sem búa á tveimur heimilum.

[11:27]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þessi skýrsla er nú nýframkomin. Ég vil byrja á því að segja að hún er mjög vönduð og eru margar tillögur í henni sem munu skipta mjög miklu máli um framhald málsins Ég tel að það frumkvæði sem þingið hafði á vormánuðum 2014 sé mjög mikilvægt og nú sjáum við afrakstur þess í þessari skýrslu. Skýrslan er mjög mikilvægt í umræðuna um stöðu þeirra foreldra sem náð hafa góðu samkomulagi en þeirra sem eru í erfiðri aðstöðu þar vegna uppeldis barna sinna. Ég hygg að það séu 20–25 þúsund þeirra foreldra sem ekki eru lengur í hjúskap þar sem ríkir gott samkomulag um forsjá barna þeirra, þ.e. þeir eru alveg sammála um það hvernig fara skuli með þau mál. Mér finnst eðlilegt að kerfið taki þá mið af því að slíkt samkomulag sé fyrir hendi þannig að löggjöfin beri þess vitni þegar um það er að ræða að það sé virt í löggjöfinni.

Núna munum við taka skýrsluna til athugunar í ráðuneytinu. Ég er mjög fylgjandi því að fara mjög nákvæmlega yfir þær tillögur að lagabreytingum sem þar koma fram. Hér eru nefndar breytingar á barnalögum, á lögheimilislögum og fleiri lögum og nú er það verkefni okkar að fara yfir þau mál og halda áfram með þau. Mér finnst mikilvægt að þegar svona skýrsla kemur að haldið sé utan um hana. Þá er farið yfir þær tillögur sem þar eru og þær sem gagnast og horfa til framfara eru í framhaldinu leiddar inn í lagafrumvarp og vonandi áfram til laga.