145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

fjármögnun Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða.

[11:36]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er gott að heyra að ráðherra er opin fyrir því að endurskoða starfsreglur Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Það vakna spurningar um það hvers vegna það sé svona erfitt að koma út þeim fjármunum sem eru þó þarna inni, á hverju strandar. Maður spyr sig: Eru sveitarfélögin vanbúin til að fara í þessa vinnu og skipulagningu þar sem framkvæmdir eru vegna innviðauppbyggingar ferðamannastaða?

Mig langar að heyra viðhorf hæstv. ráðherra gagnvart því að sveitarfélögin hefðu jafnvel einhverjar tekjur af virðisaukaskatti. Við vitum að virðisaukaskattstekjur af ferðamönnum eru auðvitað mjög miklar og það er eingöngu ríkið sem fær þær tekjur. Ég spyr hvort ekki þurfi að horfa til þess að sveitarfélögin fái einhvern tekjustofn af þeim fjölda ferðamanna sem kemur til landsins.