145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

uppbygging ferðamannastaða.

[11:43]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst að í umræðu um þessi mál hafi áherslan alltaf verið lögð á náttúruna og náttúruperlurnar, að þær verði ekki troðnar niður og að þær verði ekki eyðilagðar, og ekki ætla ég að gera lítið úr því verkefni.

En ég dreg hér fram að það eru ákveðnir staðir á landinu þar sem er mikill ferðamannastraumur, þar sem er meiri hætta á en annars staðar að fólki detti og fótbrotni eða handleggsbrotni eða meiði sig á enninu.

Sá sjóður sem ætlaður er fyrir þessi mál er stútfullur af peningum. (Gripið fram í.) Já, já, en hann er stútfullur af peningum, það eru einhver atriði sem ráðherra kallar stjórnsýslu eða eitthvað svoleiðis sem peningarnir ná ekki að ganga út í. Mér finnst það alveg stórfurðulegt að ráðherrann sem ræður þessu, sem getur breytt starfsreglunum með reglugerð vegna þess að þetta er ekki ákveðið með lögum, skuli ekki hafa drifið í því að koma þessum peningum í notkun.