145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

uppbygging ferðamannastaða.

[11:44]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Þótt vald ráðherra kunni að vera mikið hef ég ekki vald til þess að breyta með reglugerð og taka til baka fjármuni sem búið er að veita samkvæmt lögum og starfsreglum sjóðsins án þess að vita nákvæmlega hvað það er sem veldur töfinni. Það er einmitt það sem við erum að gera. Ef verkefnin munu ekki fara í gang af einhverjum ástæðum munum við sannarlega taka fjármuni til baka, en þá á þeim sterka grunni.

Varðandi öryggismálin sem hv. þingmaður vakti athygli á vil ég líka nefna að þau mál eru ekki að koma upp núna, það er ekki í fyrsta sinn verið að ræða þessi mál. Ég minni á að í náttúrupassanum margfræga höfðum við gert sérstakar ráðstafanir til þess að hluti þess fjár rynni einmitt í öryggismálin, bæði í forvarnir og kynningar en einnig í skilti og annað slíkt sem forðað getur mönnum frá því að fara á staði sem eru ekki í lagi, (Forseti hringir.) og í innviðauppbyggingu. (Forseti hringir.) Það eru því mál þar sem við erum sífellt að reyna að gera betur. Ég bind miklar vonir við að það gangi eftir þegar við förum öll að vinna saman (Forseti hringir.) eftir þeirri stefnu sem kynnt verður á næstu dögum.