145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

132. mál
[11:49]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er í sjálfu sér ekki tilefni til langrar umræðu um þetta mál sem slíkt enda aðstæður þannig að það þarf helst að gera það að lögum í dag ef ekki á að skapast vandi fyrir þá stjórnarmenn í Lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga á hverjum ella hvílir sú lagaskylda að leggja til hækkun iðgjalda sem væri að sjálfsögðu ekki gott innlegg í stöðu mála. Eftir stendur að við erum enn eitt árið að framlengja tímabundið ástand og það eru í sjálfu sér vonbrigði, eins og kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra þegar hann mælti fyrir þessu frumvarpi, en það er líklega í þriðja sinn sem það verður hlutskipti hans að leggja til frestun af þessu tagi sem menn gripu reyndar til strax á árinu 2008 þegar sýnt var að áfallið sem lífeyrissjóðir urðu fyrir með hruninu mundi þýða að tryggingafræðileg staða þeirra yrði neikvæð um verulegar fjárhæðir, a.m.k. tímabundið.

Ef ráða má af gögnum málsins er þó jákvætt að eingöngu A-deild Lífeyrissjóða starfsmanna sveitarfélaga virðist þurfa á þessari undanþágu að halda. Ég leyfi mér að lesa þannig í þessi gögn og væri fróðlegt að heyra frá formanni eða talsmanni efnahags- og viðskiptanefndar hvort upplýsingar hafi komið fram um það, því að að minnsta kosti fram á síðasta ár átti þetta líka við um A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Ef til vill má þá álykta af þessu að staðan þar hafi vænkast svo sem því nemur að ekki þyrfti á undanþágu eða framlengingu að halda vegna A-deildar LSR.

Að lokum eru það svo veruleg vonbrigði hversu hægt hefur gengið að ná utan um heildarmyndina hvað varðar jöfnun lífeyrisávinnslu og eitt sæmilega samræmt lífeyrisréttindaávinnslukerfi í landinu.

Út af fyrir sig er þá ekkert annað að gera á meðan en að halda lokinu áfram á þessum potti, en það kraumar undir og þetta kemur jafnan upp í hvert skipti sem kjarasamningar eru gerðir. Ég tala nú ekki um ef eitthvað er á dagskrá sem hefur að einhverju leyti áhrif á lífeyrissjóðina eða lífeyrisréttindin, þá er jafnan grunnt á því góða þegar farið er að ræða mismunandi stöðu kerfanna og ábyrgð hins opinbera á opinberu sjóðunum annars vegar og sjálfsábyrgð almennu lífeyrissjóðanna hins vegar.

Ég held að línan sem tekin hefur verið í þeirri vinnu sé hárrétt, þ.e. að jafna réttindin upp á við, því að allir hljóta að gera sér grein fyrir því að það er torsótt að skerða réttindi til framtíðar sem fyrri kynslóðir væru þá aðnjótandi. Ég veit svo sem ekki til þess að neinn vilji í sjálfu sér að lífeyrisréttindi almennt inn í framtíðina verði lakari en stefnt var að því að byggja upp. Það þýðir auðvitað að ná verður samkomulagi um að hækka inngreiðslurnar í almennu lífeyrissjóðina. Að því marki sem af hálfu opinberra starfsmanna yrði um samræmingu við almenna markaðinn að ræða hefur það að sjálfsögðu beina kjaraskírskotun gagnvart opinberum starfsmönnum. Þá munu menn krefjast þess að ekki bara séu lífeyrisávinnsluréttindin jöfnuð heldur sé þá líka gliðnun í kjörum jöfnuð samtímis þannig að menn standi jafnt að vígi hvað varðar bæði lífeyrisréttindi og kjör. Þar kemur að því snúna sem stendur væntanlega mest í mönnum, að leggja heildstæðan grunn undir það að unnt sé að jafna hvort tveggja.

Af hálfu opinberu aðilanna hefur að sjálfsögðu líka verið lögð áhersla á að ríkið legði niður áætlun um það hvernig tekist verður á við uppsafnaðan halla í B-deild LSR og að einhver tímasett áætlun liti dagsins ljós um hvernig þeim vanda verður mætt, hvenær inngreiðslur hefjist og í hve miklum mæli þannig að menn afstýri þeim stalli sem menn rækjust annars lóðbeint á um 2025 eða hvenær sem B-deildin yrði tóm miðað við óbreytt ástand.

Ég hef minnt á þetta hér, herra forseti, nokkrum sinnum, bæði í fyrra og aftur núna, þegar menn tala í gleði sinni um batnandi afkomu ríkisins, svigrúm til að lækka skatta og annað í þeim dúr. Vissulega er okkur farið að ganga betur, það er ánægjulegt, en þá er líka tímabært að taka upp spurninguna: Hvenær ætlum við að fara að takast á við þennan framtíðarvanda? Eða ætlum við ekki að gera það? Ætlum við bara að lifa í skjólinu af því að sjóðurinn dugi í á að giska áratug í viðbót og láta þeim það eftir sem þá verða í stjórnmálum og þá munu borga skatta að takast á við þann vanda? Það væri ekki sérstaklega ábyrgt.

Mér finnst mjög nauðsynlegt að menn gleymi ekki þeim viðfangsefnum sem þarna er við að glíma og ég leyfi mér að nota þetta tækifæri til að taka þetta aðeins upp. Í sjálfu sér gerði þingið margt óþarfara við tíma sinn en að taka einhvern tímann rækilega umræðu um stöðuna í þessum gríðarlega mikilvæga málaflokki þótt ekki væri nema í minningu félaga okkar, hv. þm. Péturs heitins Blöndals, sem var mjög ötull við að halda mönnum við efnið í þessum málum og minna á að þarna væri eitt af allra stærstu viðfangsefnum framtíðarinnar sem menn mættu ekki koma sér undan að takast á við og ræða. Það ætlum við ekki að gera, við höfum takmarkað svigrúm til þess í tengslum við þetta litla mál sem er bara einföld framlenging á því tímabundna ástandi sem við höfum búið við allt frá 2008, að menn gefi sér tíma til að vinna sig út úr þessum vanda. Það hefur sem betur fer gerst í þeim skilningi að í upphafi átti þetta bæði við um allmarga almenna lífeyrissjóði og síðan alla opinberu sjóðina, en nú bera gögnin það með sér að aðeins sé eftir einn lífeyrissjóður, A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga, sem enn er gerður upp að þessu leyti með meira en 10% halla. Þar þarf augljóslega að takast á við vandann sem slíkan en líka vinna ötullega að stóra viðfangsefninu sem er að koma þessum lífeyrisréttindamálum okkar landsmanna allra í eitthvert gott framtíðarhorf.