145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

132. mál
[12:04]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Það eru auðvitað nokkrar góðar leiðir til þess. Við gætum reynt að semja um að hafa hér ítarlega umræðu sem e.t.v. hæstv. fjármálaráðherra mundi þá opna með munnlegri skýrslu eða einhverju þess háttar um stöðu mála. Vandinn er kannski sá að menn treysta sér ekki til að segja mjög mikið meðan þessar viðkvæmu viðræður eru enn á lífi, ef svo má orða það, með aðild allra á vinnumarkaði að því að reyna að ná utan um lífeyrissjóðamálin í heild sinni. Það er alltaf brothætt og vandmeðfarið, því að þarna myndast fljótt spenna ef menn ganga ekki gætilega fram.

Þetta verður í raun aldrei aftengt kjaraviðræðunum vegna þess að þetta er svo samtvinnað þegar verið er að semja annars vegar um kjörin dag frá degi og hins vegar um hvað þessir þrír aðilar, launamaðurinn, vinnuveitandinn og í raun og veru ríkið með skattfrelsinu, leggja af mörkum til þess að byggja upp lífeyrisréttindin í sjóðsöfnunarkerfið. Vel að merkja er það eindregin skoðun mín að stigið hafi verið mikið gæfuspor um 1970 sem við rötuðum inn á, og styrktum í sessi 1996 þegar lífeyrissjóðakerfið með sjóðsmyndun var byggt upp. Þar liggur langstærsti sparnaður landsmanna, eignir upp á um yfir 150% af vergri landsframleiðslu og gríðarlega stórt hagsmunamál fyrir í fyrsta lagi þá sem eiga lífeyrisréttinn, í öðru lagi fyrir ríki og sveitarfélög sem eiga þarna geymdar skatttekjur og í raun fyrir allt samfélagið hvernig. Þessu tengjast mörg flókin mál, svo sem eins og samspil skattlagningar almannatrygginga og lífeyrisréttinda sem huga þarf að í þessum efnum.

Ég tek hvatningunni vel. (Forseti hringir.) Ég skal hugleiða það hvernig mér fyndist skynsamlegast að við tækjum vandaða umræðu um þetta mál einhvern tímann þegar vel stendur á.