145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

15. mál
[12:28]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir framsöguna og fyrir þarfa þingsályktunartillögu sem er hér til umræðu. Mig langar til að staldra við einn lið tillögunnar, 6. lið, sem fjallar um endurmat á byggingarreglugerð. Mér er málið nokkuð skylt þar sem ég sat í embætti umhverfis- og auðlindaráðherra þegar byggingarreglugerð var endurskoðuð á síðasta kjörtímabili þar sem var farið í verulegar og mikilvægar endurbætur á byggingarreglugerð, þ.e. hún var uppfærð til nútímans og það voru gerðar auknar gæðakröfur að því er varðaði íbúðarhúsnæði. Minnug þess að Íslendingar setja yfirleitt allt sitt sparifé í íbúðarhúsnæði er afar mikilvægt að halda því til haga að almenningur sé tryggður hvað varðar gæði þeirra íbúða.

Það sem síðan olli mestum ágreiningi í umræðunni í kjölfarið á setningu nýju byggingarreglugerðarinnar, sem er ríflega 200 síðna löng og mikil og fjallar um einangrun, hljóðvist og allt mögulegt, voru ákvæðin um altæka hönnun og aðgengi, þ.e. menn börmuðu sér undan þeim kröfum að tryggja þyrfti aðgengi allra að öllu húsnæði. Ég vil spyrja formann jafnaðarmannaflokks Íslands um nákvæmlega þann þátt og þá mikilvægu varðstöðu, liggur mér við að segja, sem við verðum að passa upp á við hlið Öryrkjabandalagsins og annarra þeirra sem berjast fyrir fullu aðgengi allra, að gefa ekki eftir þegar þær kröfur verða hvað háværastar um að sumt íbúðarhúsnæði þurfi bara að vera aðgengilegt (Forseti hringir.) sumum.