145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

15. mál
[12:34]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að tryggja aðgengi fyrir alla að opinberum rýmum. Það er frumskylda okkar.

Hv. þingmaður rekur leiðsögnina sem kom úr umhverfis- og samgöngunefnd og ég held að það sé ekkert hægt að horfa fram hjá því að þetta sé dæmi um að það skorti stundum á á Íslandi að við gerum fullnaðargreiningar á raunverulegum afleiðingum hugmynda sem eru á kreiki. Það er auðvelt að segja: Já, við viljum tryggja aðgengi fyrir alla og já, við viljum auka kröfur. Ég held að alla hafi rekið í rogastans þegar byggingarreglugerðin kom út og menn áttuðu sig á þeirri kostnaðaraukningu sem hún gerði ráð fyrir. Ég held að hún hafi aldrei verið lögð fram á einhverjar hagsmunamatsvogarskálar. Það er auðvitað grunnkrafa okkar líka í þeim húsnæðisvanda sem er við lýði nú og hefur verið við lýði undanfarin ár að tryggja möguleika á byggingu ódýrra íbúða og ódýrra leiguíbúða. Það er líka frumskylda okkar.

Í þessu eins og öðru verða stjórnmálamenn að vega hagsmuni út frá almannahagsmunum og finna eðlilegt jafnvægi. Það er það sem ég held að okkur hafi ekki tekist að gera áður en byggingarreglugerðin var sett og það er það sem ég held að sé mikilvægt að gera núna, fara yfir það með hvaða hætti breytingar hafa verið gerðar á henni, að hvaða leyti búið er að mæta þessum sjónarmiðum, að hvaða leyti það er eftir og hvort það sé mögulegt út frá almannahagsmunum.

Við verðum líka að horfast í augu við það að það er dýrt að senda ungri kynslóð í dag reikninginn fyrir mistökum fortíðarinnar. Við bætum ekki skort á aðgengi að opinberum byggingum með því að segja við fólk sem er tvítugt í dag að það eigi að byggja sér íbúðir sem henta fyrir hjólastóla. Þetta er tvennt ólíkt. Ungt fólk í dag á auðvitað rétt á því að fá að byggja ódýrt og lítið og búa ódýrt og í litlu (Forseti hringir.) ef það er vilji þess.