145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

15. mál
[12:43]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um þann vanda sem stafar af því að allt of víða eru íbúðir í eigu Íbúðalánasjóðs auðar. Ég held að þar sé um að ræða vanda vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki tekið ákvörðun um endurfjármögnun sjóðsins þannig að hann geti horfst í augu við tap. Það er verið að halda verði þessara eigna of háu, það er hvorki hægt að leigja þær né kaupa og gera við þær eins og þarf. Þær rýrna og hrapa í verði ár frá ári vegna skorts á viðhaldi. Það er orðið grundvallaratriði mjög víða að ríkið og Íbúðalánasjóður horfist í augu við óhjákvæmilegt tap og komi þessum eignum út.

Það þarf líka aðeins að hugleiða uppbyggingarstefnuna á landsbyggðinni í samhengi við þá staðreynd að ferðaþjónustan er að verða stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein landsins. Ef hún á að geta vaxið áfram og tekið við fleiri ferðamönnum þarf hún að verða mjög mikilvæg í svo að segja öllum sveitarfélögum vítt og breitt um landið. Hún verður auðvitað landsbyggðargrein að verulegu leyti ef vaxtarhorfur hennar rætast.

Þess vegna held ég að það þurfi að nálgast þetta allt öðruvísi en að hugsa bara hversu margir séu að vinna í fiski þar og þá. Þeim sem eru að vinna í fiski mun fækka. Þeim hefur fækkað um sirka 2% á ári síðustu 40 árin og mun halda áfram að fækka ef við höldum áfram að búa svo vel að hafa vélvæddan og iðnvæddan sjávarútveg. Þá verða til önnur störf og það verður að vera til pláss og húsnæði fyrir fólk sem sinnir þeim störfum. Það þarf að vera til gistipláss og það þurfa að vera til fjölbreyttir möguleikar til atvinnulífs á landsbyggðinni. Með aukinni tæknivæðingu verður líka að vera til möguleiki fyrir fólk sem nú býr í þéttbýli að kjósa að búa annaðhvort í dreifbýli úti á landi eða í þéttbýli úti á landi.

Við erum að horfa á allt annað byggðamynstur sem þarf að byggja (Forseti hringir.) upp fyrir og ríkið verður að koma þar að og tryggja að það séu möguleikar á því að hafa sveigjanlegan og opinn vinnumarkað á öllum stöðum vítt og breitt um landið.