145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

samþjöppun í mjólkurframleiðslu.

[13:35]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum og reyndar áratugum hefur kúabúum fækkað umtalsvert. Til dæmis hefur þeim fækkað um rúm 20% frá árinu 2004, eða á þeim tíma sem síðasti búvörusamningur var gerður við mjólkurframleiðendur og reyndar tvíframlengdur. Mjólkurframleiðendur eru nú um 690 talsins.

Frá árinu 1980 hefur mjólkurframleiðslan aukist úr 100 millj. lítra í um 140 millj. lítra á þessu ári, hefur að vísu verið nokkuð sveiflukennd á þessu tímabili. Þannig hefur aukningin síðustu tvö árin verið um 25 millj. lítra.

Meðalnyt á hverja árskú hefur á þessum sama tíma aukist úr 4.600 lítrum á kú árið 2000 í 5.600 lítra árið 2013. Þó nokkrir bændur eru þó með bú þar sem meðalnyt er yfir 7 þús. lítrar ár eftir ár, einkum þeir sem eru með nýrri og betri fjós og hafa breytt framleiðsluaðferðum sínum til þess að vera með sem best hráefni, sem best fóður. Það er því augljóst að hægt er að sækja talsvert mikið fram til bættrar afkomu og lægri kostnaðar á einstökum búum.

Á undanförnum árum hafa einnig verið stigin stór skref til hagræðingar hjá mjólkuriðnaðinum. Þetta sýnir nýlega útkomin skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og hluti af síðustu búvörusamningum sneri einmitt að þeim þætti. Þannig hækkaði verð á mjólkurafurðum minna en almennt neysluverð á Íslandi á árunum 2003 til 2013 á yfir 70% vörutegunda og yfir 20% með svipuðum hætti. Þegar þróun verðs á einstökum mjólkurafurðum er borin saman við verð á einstökum tegundum annarrar matvöru kemur í ljós að um 70% af öðrum matvörum sem til skoðunar voru hækkuðu meira í verði en mjólkurafurðir, en aðeins 10% þeirra hækkuðu minna í verði.

Kostnaður við að safna mjólk hér á landi er hár. Landið er stórt og dreifbýlt, en leitast hefur verið við að ná þeim kostnaði niður sem frekast er kostur meðal annars með því að skipuleggja mjólkursöfnun og verkaskiptingu hennar á einstök mjólkurbú. Þannig hafa bændur staðið saman að því. Hins vegar geta allir safnað mjólk og keypt mjólk af bændum ef þeir kjósa svo.

Nýlega hefur Mjólkursamsalan ákveðið að styrkja smærri framleiðendur og geta þeir nú keypt mjólk á sama verði og MS greiðir bændum fyrir hana. Þetta er rúmlega 11% lækkun frá almennu verði á ógerilsneyddri hrámjólk og felur í sér að Mjólkursamsalan veitir öðrum framleiðendum endurgjaldslausan aðgang að því kerfi sem fyrirtækið rekur til þess að safna, gæðaprófa og miðla óunninni mjólk.

Verksmiðjubú eru ekki til á Íslandi í mjólkurframleiðslu þótt þau séu stór á íslenskan mælikvarða. Hafa verður í huga að stærri bú eru hagkvæmari í rekstri. Varðandi framtíðina þá finnst mér skynsamlegt að skoða hvort ekki þurfi að setja þak á einstaka greiðslur, það sé ekki skynsamlegt að greiða endalaust út á framleiddan lítra þótt við séum kannski ekki fær um að nefna hér og nú hversu hátt eða lágt það þak ætti að vera, enda stendur búvörusamningslotan yfir.

Við endurskoðun búvörusamninga tel ég rétt að hugað verði að því hvernig megi styrkja byggðafestu með styrkjum í landbúnaði. Viðræður eru að hefjast og reyndar hafnar við forustu bænda. Þetta er eitt af því sem ég mun viðra í þeim, þ.e. hvernig hægt er að styrkja byggðafestu með greiðslumarki, hvort sem er í mjólk, kjöti eða hverju öðru því sem verða kann.

Það má spyrja hvort það sé réttlátt að sömu styrkir fari til búa sem eru langt utan alfaraleiðar og hinna sem næst liggja. Bændur hafa í sjálfu sér svarað því sjálfir með því að koma á jöfnunarkerfi þannig að það kostar jafn mikið að sækja mjólkina hvert sem hún er sótt. Það þarf hins vegar hugsanlega að taka ákvörðun um að haga styrkjum með þeim hætti að styrkja jaðarbyggðir meira en aðrar.

Hins vegar skal líka hafa það hugfast að erfitt er að krefjast sífellt meiri hagræðingar ef búin mega ekki stækka. Ég sé ekkert athugavert við það að fyrirtæki fjárfesti í sinni heimabyggð. Slíkt styrkir byggðina í kring. Það fylgir því mikil þjónusta að hafa stórt kúabú í sveitarfélaginu og ef einhver er tilbúinn að fjárfesta í slíku því skyldi hann ekki gera það? Hagnaðurinn verður eftir í heimabyggðinni, styrkir þjónustuna. Ég þekki það af eigin raun að meðal annars á því svæði sem um hefur verið rætt, Austur-Skaftafellssýslu, skiptir það máli fyrir hina bændurna að þar væri öflugt bú sem tryggði að það væri nægileg vinna fyrir dýralækni, ráðunauta og aðra þá sem þjónusta landbúnaðinn.

Það getur líka verið áhugavert að sjá nýsköpunarkraft og tæknihugsun sjávarútvegsins koma inn í landbúnaðinn. Báðar greinar eru jú matvælaframleiðsla.