145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

samþjöppun í mjólkurframleiðslu.

[13:48]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegur forseti. Mig langar að þakka málshefjanda innilega fyrir að tala um þetta mál, enda er það mjög mikilvægt og mikið áhyggjuefni fyrir byggðir úti á landi. Það er kannski svolítið gróft að fara að blanda bjór inn í þessa umræðu þar sem bjór er ekki á borðum landsmanna á hverjum einasta morgni, vona ég, en flestir nota mjólk, a.m.k. út í grautinn eða á seríósið.

Hins vegar snýst þessi blessaði iðnaður líka um það hversu sjálfbær hann getur verið. Í því samhengi langar mig að nefna að það felast náttúrlega gífurleg tækifæri í því að flytja út íslenskar mjólkurvörur, t.d. smjör, ost og skyr. Ég veit að írskt smjör er nú á borðum flestra Evrópulanda, einfaldlega af því að það þykir betra. Íslenskt smjör er ekkert síðra en írskt smjör þannig að þarna er til dæmis útflutningsgrein sem er vannýtt af því að við erum alltaf að röfla um það hvernig við getum stuðlað að því að gera þessa íslensku mjólkurmenningu íslenskari og styrkja hana einhvern veginn í stað þess að breyta þeim viðhorfum sem við höfum til markaðarins og sækja á önnur mið. Það er svo gott sem reiðubúinn markaður fyrir til dæmis unna íslenska mjólkurvöru; hún hefur gott orðspor. Það er nokkuð sem við þurfum að styðja frekar en að rífast um einhverjar styrkjaleiðir til þess að safna mjólk þó að það sé að vissu leyti mikilvægt umræðuefni.