145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

samþjöppun í mjólkurframleiðslu.

[13:52]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með þeim sem hér hafa þakkað málshefjanda fyrir umræðuna. Við þurfum auðvitað að hugsa um það hvernig umhverfi við viljum að bændur á Íslandi búi í. Þetta er starfsstétt sem er ólík öðrum starfsstéttum því þar fléttast saman starfsvettvangurinn og heimili í eitt og fylgjast algjörlega að.

Einn sá galli sem ég tel vera á greiðslumarki mjólkur í dag er fyrirkomulag kvótamarkaðarins og þeirra reglna sem gilda um hann. Áður en hæstv. landbúnaðarráðherra gekk í málið og leyfði t.d. undanþágur á flutningi greiðslumarks milli jarða hjá þeim sem voru að flytja sig um set eða sameina tvíbýli undir eitt þak voru bændur mjög bundnir og kerfið flækti allt ferlið til muna á annars mjög eðlilegri framleiðslu með öll tilskilin leyfi. Þessar undanþágur hafa gert nýliðum kleift að flytja með sér greiðslumark af jörðum sem eru með aðrar forsendur en til mjólkurframleiðslu yfir á jörð þar sem möguleikar eru fyrir rekstri á kúabúi.

Þá vil ég einnig taka til greina hugmynd hæstv. ráðherra sem fleiri hafa komið inn á hérna um að setja eitthvert ákveðið þak á greiðslumark svo menn geti ekki endalaust sankað að sér greiðslumarki. Ég er þó þeirrar skoðunar að mjólkurframleiðendur eigi að hafa tækifæri og svigrúm til að framleiða eins og þeir geta. Ég tel það ekki rétt skref að fara að skrúfa fyrir framleiðsluna, en hún óx gífurlega þegar eftir því var óskað að bændur færu að framleiða meira. Eins og gerist á hinum almenna vinnumarkaði, ef aðili sér svigrúm til að stækka fyrirtæki sitt þá leitar hann auðvitað leiða til þess að gera svo. Það sama á við um bændur með sín bú í því viðskiptaumhverfi sem þeir lifa og hrærast í.

Kannski eru það við ungu þingmennirnir hérna sem tölum um það, en ég segi alla vega að við eigum að einbeita okkur að því að finna styrk á mörkuðum erlendis. Íslenska kýrin og íslenskir bændur eiga svo gífurlega mikið inni. Það er hægt að framleiða meira án þess að gengið sé nærri dýrunum, en á móti getur það ekki verið hollt, vegna verslunarsjónarmiða, að kýla upp fóðurgjöf eða skrúfa hana niður. Það þurfa auðvitað að vera ákveðnar forsendur til staðar.

Ég tel að við (Forseti hringir.) getum skapað ljómandi gott umhverfi fyrir íslenska bændur og komið til móts við markaðsumhverfið með því að niðurgreiðsla hins opinbera rjúki ekki upp á móti.