145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

samþjöppun í mjólkurframleiðslu.

[13:54]
Horfa

Hörður Ríkharðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta eru fróðlegar umræður. Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, ef ég skildi hann rétt, ýjaði að því að við mundum hverfa frá þessu kerfi. Ef við ætlum að ræða það þá verðum við að vita hvað keypt hefur verið mikið greiðslumark síðastliðin X ár. Þeir sem hafa keypt það, hvernig eru þeir skuldsettir fyrir þeim kaupum? Hvernig áform hafa þeir um að borga það á næstu 20 árum? Hvað ætlum við að gera fyrir þá eða við þá eða hvað verður um þá ef við ætlum að hverfa frá þessu kerfi? Þetta er hins vegar algjörlega umræðunnar virði og líka það sem hv. þingmaður ýjaði að að við færum með stuðninginn frá því að maður búi á lögbýli yfir í að rækta landið, halda því í rækt, búa með fjölskyldu sína, yfir í umhverfisvænar greiðslur, yfir í eitthvað tengt sjálfbærni, umhverfissjónarmiðum, gripagreiðslum og öðru slíku, en minnka eða hverfa frá áherslunni á að greiða fyrir framleidda mjólk.

Síðan er enn fremur búið að koma inn á það sem hefur náttúrlega mikil áhrif á rekstrargrundvöll búa, þ.e. hvaða kröfur á að gera um hvaða fóður er notað. Má vera hvað sem er í því fóðri? Mega menn hafa eytt regnskógum til að framleiða eitthvað sem væri sett í það fóður? Höfum við skoðun á því? Allt hefur þetta áhrif á hagkvæmnikröfuna.

Ég ýjaði að því áðan og vil leggja enn frekari áherslu á það að menn rannsaki þau áhrif sem þegar hafa orðið á byggðirnar vegna fækkunar búa. Við þurfum kannski að fara að ræða um hvar á landinu þessi framleiðsla á að vera og þá um leið hvar ekki, ef menn treysta sér einhvern tímann í það. Ég held að því fyrr sem menn þora að fara í slíka umræðu og byrja á henni, því betra.