145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

samþjöppun í mjólkurframleiðslu.

[13:56]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Ég held við gætum alveg tekið allan daginn í hana því að hún er mjög mikilvæg og hefur margar hliðar og ég held að það sé ekki svo langt á milli okkar í þessu máli eða öðrum sem tengjast landbúnaði því að við gerum okkur grein fyrir því að landbúnaður er hluti af byggðastefnunni og við viljum framleiða matvæli á Íslandi, ég held að allir séu sammála um það.

Það kom út skýrsla, mjólkurskýrslan sem ég kalla svo, sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann og í henni var margt áhugavert. Meðal annars segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Fyrir fáeinum árum var það mat sérfræðinga að liðlega þriðjungur opinberra styrkja til landbúnaðar rynni til fyrrverandi bænda og fjármálastofnana. Gera má ráð fyrir að þetta hlutfall vaxi jafnt og þétt með tímanum.“

Einnig er tekið fram í þessari skýrslu, sem er alveg rétt, að það eru þeir sem byrja búskap, fá kvótann í upphafi, sem njóta hans og það er erfitt fyrir nýja aðila að koma inn og þurfa að kaupa dýran mjólkurkvóta. Maður spyr sig hvort við séum ekki komin á þann stað í dag að við þurfum ekki að vera með kvótakerfi í þessu. En eins og einnig hefur komið fram má spyrja hvernig við komum okkur út úr því vegna þess að skuldirnar eru áfram til staðar.

Mér skilst að í Evrópusambandinu séu menn hættir með framleiðslukvóta á mjólk og séu farnir að miða styrkina meira við stærð ræktunarlands, landnýtingu og annað því um líkt og ég er mjög fylgjandi því.

Þegar við tölum um byggðamálin í þessu þá held ég að við höfum ekki verið að fókusa alveg rétt. Eins og kom fram hér áðan þá eru þetta aðallega tvær greinar, sauðfjárrækt og mjólkurframleiðsla. Ég er ekki sammála því að það hafi verið eitthvað gróft að blanda bjór inn í þetta, það var einfaldlega til að benda á að oft geta framleiðsla og iðnaður sprottið upp án afskipta ríkisins. En ég held að við ættum að horfa á byggðamálin í miklu víðara samhengi. Ef við ætlum í raun að halda úti byggð í landinu þá dugar ekki að vera bara með einhverja stefnu í landbúnaði, það þarf svo miklu, miklu meira til.