145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

samþjöppun í mjólkurframleiðslu.

[13:58]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta eru fínar umræður. Ég vil samt gera einkum þrennt að umtalsefni. Árið 1991 varð mikil kerfisbreyting í landbúnaðarkerfinu eins og menn orða það svo oft. Ákveðið var að breyta hinu gamla kerfi sem verkalýðshreyfingin krafðist að fá fyrir nokkrum áratugum, þ.e. fjármuni til þess að greiða niður vöruverð og stilla af framfærslu í landinu, og senda heldur fjármuni beint til bændanna. Eftir að sú breyting var gengin í gegn hefur sá stuðningur stöðugt minnkað á seinustu tíu árum. Hæstv. landbúnaðarráðherra rakti það að hluta til í ræðu sinni hér áðan. Ég hefði reyndar haldið að það væri allt að 25% skerðing á undanförnum tíu árum í þeim efnum.

Næsta skref var eiginlega það að launþegahreyfingin, sem lét sér hagsmuni fólks varða með þessum hætti, hvarf svolítið frá þeirri hugsun og allir þessir fjármunir voru sendir beint til bændanna og þá minnkaði tilfinningin fyrir hlutverki fjármunanna. Næsta skrefið var þegar við töluðum um að flytja stuðninginn frá framleiðslunni eða út úr kvótanum og yfir á land. Þar með verða þessir peningar enn minna tengdir hagsmunum fólks almennt og vöruverði. Það er alveg sjálfstæð umræða.

Bara vegna þess að síðasti ræðumaður hér talaði um breytingarnar í Evrópu langar mig að eyða seinasta hluta ræðu minnar í að ræða það aðeins því að ég held nefnilega að við getum lært margt af því sem þar er að gerast. Það var ákveðið í Evrópusambandinu árið 2008, þegar heimsmarkaðsverð á matvöru var stöðugt að hækka, að hverfa frá kvótakerfi mjólkur. Í apríl síðastliðnum var kvótakerfið lagt niður í Evrópusambandinu. Síðan eru liðnir örfáir mánuðir og við sjáum í hverri einustu viku meiri og meiri mótmæli bænda vegna versnandi afkomu. Við getum lesið skýrslur um það hvernig kerfisbreytingin frá því að flytja stuðninginn frá framleiðsluheimildunum yfir á landið hefur búið til stærri og stærri matarholu fyrir milliliðina á leiðinni til neytenda.

Það er margt sem við getum breytt og (Forseti hringir.) margt sem við þurfum að endurskoða, en við höfum líka ýmislegt af öðrum að læra hvernig við eigum ekki (Forseti hringir.) að gera það.