145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

15. mál
[14:16]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var hugsi yfir því hvort ég ætti að veita andsvar við ræðu hv. þingmanns sem talar hér um tillögu okkar jafnaðarmanna um átak í húsnæðismálum á viðráðanlegum kjörum. Ég ætla að gera það en bara á almennan hátt sem snýr að þessu með reglugerð.

Það er alveg rétt hvernig hv. þingmaður hefur farið yfir byggingarreglugerð sem gerð var í hennar tíð sem umhverfisráðherra á síðasta kjörtímabili. Ég var nefnilega einn af þeim sem stigu fram, m.a. á Alþingi, og gagnrýndu ýmislegt sem þá var inni í breytingartillögum. Ég tek skýrt fram að á því voru gerðar bragarbætur, ýmislegt fært að mér fannst aftur á bak og jafnvel til betri vegar.

Ég tek eitt dæmi í þessu stutta andsvari. Í upphaflegum tillögum, og nú er ég að reyna að rifja upp allt það sem arkitektar og hönnuðir sögðu við mann þegar þeir komu á fundi o.fl., stóð meðal annars til að auka einangrun úr 8 tommum í 12 tommur á húsum. Mér er kunnugt um fólk sem var að fara að byggja á þeim tíma og ef það hefði lent undir þessu hefði byggingarkostnaður aukist töluvert en útreiknaður kostnaður við sparnaðinn af hitun húsnæðisins var mældur í tugum ára, að hann kæmi til baka á mjög löngum tíma. Auðvitað blandast hér inn í það sem hv. þingmaður sagði, að við búum á Íslandi við næga og mjög ódýra orku til að nýta húsnæðið okkar. Þetta er eitt af þeim dæmum sem þá var gagnrýnt mjög og ég var í þeim hópi. Ég hika ekki við að halda því fram að umræðan á þeim tíma gerði það að verkum að menn bökkuðu með þá tillögu. Það hefði sannarlega hækkað byggingarkostnaðinn (Forseti hringir.) hefðu menn haldið þessu til streitu.