145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

15. mál
[14:37]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir þetta andsvar og að hnykkja á nokkrum atriðum sem ég gerði hér að umtalsefni. Ég þakka henni fyrir það að taka undir með okkur að þetta séu bráðaaðgerðir. Það er bara þannig að markaður og framkvæmdir frusu við hrun bankakerfisins og efnahagsáfalls. Ekki var mikið byggt og það myndaðist gat og það er að koma heldur betur í hausinn á okkur núna.

Herra forseti. Eins og ég sagði í lok ræðu minnar þá hika ég ekki við að halda því fram að eitt af mikilvægustu málunum hér á Alþingi á þessu haustþingi er að reyna að mynda samstöðu allra flokka um brýnar aðgerðir í húsnæðismálum. Ég tel að það sé hægt ef menn leggja sig fram.

Hv. þingmaður gerði að umtalsefni skoðanaskipti mín og hæstv. fyrrverandi umhverfisráðherra Svandísar Svavarsdóttur um byggingarreglugerð, svona minni núansa eins og hún kallaði það, og það sem ég sagði um að menn þyrftu að hafa í huga að þjóðin er að eldast og taka þarf tillit til aldraðra og hreyfihömlunar hjá öldruðum. Það þarf að huga að þessu og ég held að margt af því sem gert var í byggingarreglugerðinni komi einmitt til móts við þetta. En það voru atriði eins og ég átti hér orðaskipti um við hv. þingmann áðan eins og auknar kröfur um einangrun íbúða sem gerðu það að verkum að þessi umræða hófst. Í framhaldi af því kom ýmislegt annað fram og ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði áðan. Ég var ekki beint undirbúinn til að rifja það upp hvað annað það var sem hönnuðir gerðu athugasemdir við en ég er þeirrar skoðunar að það sé alltaf best að þeir sem vinni og hanna og skipuleggja íbúðir o.fl. (Forseti hringir.) þurfi líka að koma að gerð reglugerðarinnar, en ég get komið betur að því í seinna svari.