145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

15. mál
[14:54]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar aðeins að koma hingað upp varðandi það sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir var að segja áðan og ræða aðeins um skoðanir hennar á breytingum á byggingarreglugerð. Mig langar að lesa aðeins upp nokkra hluti sem eru í byggingarreglugerð sem ég held að séu gríðarlega til trafala þegar við ætlum að takast á við þann mikla vanda sem er á húsnæðismarkaði í dag, sérstaklega fyrir þennan stóra hóp ungs fólks. Svo má ekki gleyma því að þarna mætast tveir hópar, unga fólkið og svo líka eldra fólk sem vill minnka við sig og búa í minna húsnæði þannig að það sækir inn á sömu markaði.

Í byggingarreglugerð segir að eldhús megi ekki vera minna en 7 fermetrar þó að nægur eldhúskrókur sé í íbúðinni, íbúð sem er minni en 50 fermetrar. Sérgeymslur skulu vera stærri en 6 fermetrar í íbúð sem er yfir 80 fermetrar. Í hverri íbúð skal vera baðherbergi sem er ekki minna en 5 fermetrar og í hverri íbúð skal vera minnst eitt herbergi sem er stærra en 18 fermetrar. Í hverri íbúð skal vera bakarofn og pláss fyrir uppþvottavél. Hverju íbúðarhúsnæði skal fylgja leiksvæði fyrir börn á lóð. Þetta eru bara nokkrir af þeim hlutum sem augljóslega kalla á mikinn kostnað og í íbúð sem á að vera lítil eða meðalstór þá spyr maður sig hvort það sé endilega nauðsynlegt að í henni sé eitt herbergi sem er 18 fermetrar. Ýmsir svona hlutir verða vissulega til þess að ýta kostnaði upp. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort í hugmyndum Samfylkingarinnar komi fram einhverjar konkrettillögur um hverju megi t.d. breyta í byggingarreglugerð.