145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

15. mál
[14:56]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Síðan þessi byggingarreglugerð var gefin út hefur hún verið til stöðugrar umræðu. Ég tilheyri kannski ekki þeim hópi í Samfylkingunni sem er hvað áfjáðastur í að endurskoða byggingarreglugerð. Ég er ekki sérfræðingur í byggingarreglugerð en ég veit að samkvæmt núgildandi byggingarreglugerð, þeirri nýju, er möguleiki á að byggja minni íbúðir en var í fyrri byggingarreglugerð.

Ég ætla kannski að sleppa svolítið billega þegar ég segi að húsnæðisvandinn á Íslandi er ekki til kominn vegna byggingarreglugerðar. Ef við sem búum í einu ríkasta samfélagi heimsins á hjara veraldar í skítakulda og dveljum flest mikið á heimilum okkar stóran hluta ársins, getum ekki byggt viðunandi húsnæði sem venjulegt fólk hefur efni á að búa í þá segir það okkur ekki að byggingarreglugerð sé vandamálið heldur að það sé alvarlegur strúktúrvandi í íslensku efnahagslífi. Eitt af því er íslenski gjaldmiðillinn. Hv. þingmaður verður að sjá í gegnum fingur sér við þetta svar en ég er bara ekki manneskjan sem er til þess fallin að ákvarða hvað rýmið á að vera stórt, 18 fermetrar er vissulega nokkuð stórt (Forseti hringir.) en fólk er mikið á heimilum sínum. Við búum ekki í Granada eða Róm.