145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

15. mál
[15:09]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar af þessu tilefni að segja litla sögu. Ég bjó lengi í Svíþjóð, í því sæluríki sósíaldemókrata sem þá var, og það er vonandi aftur á þeirri leið. Þar er gott aðgengi víða og hugað hefur verið að því lengur þar en víða annars staðar. Þar fékk ég í heimsókn litla stúlku úr fjölskyldunni sem var alin upp í Parísarborg. Það sem vakti athygli hennar og hún sagði við mig á einhverjum tímapunkti: „Það eru svo margir fatlaðir hérna í Svíþjóð.“ Þá benti ég henni á að það væri nú einfaldlega þannig að ekkert fleira fatlað fólk væri hlutfallslega í Svíþjóð en í París, en það væri bara auðveldara fyrir það fólk að taka þátt í samfélaginu út af aðgengismálum.

Aðgengismál eru spurning um þátttöku í samfélaginu. Þau eru spurning um þátttöku fyrir alla þá sem að einhverju leyti þurfa að komast leiðar sinnar með greiðari hætti en við sem getum notað tvo jafn fljóta óhindrað. Þetta skiptir máli. Við verðum að sýna framsýni, því að þeim íbúum á Íslandi mun fjölga sem þurfa greiðara aðgengi til að geta tekið þátt í samfélaginu. Þegar þú tekur frá fólki að geta tekið þátt í samfélaginu með auðveldum hætti og hindrar það í athöfnum daglegs lífs þá dregur það líka úr heilsu og þreki fólks og við verðum með stærri hóp aldraðra sem verður ósjálfbjarga fyrir vikið. Það vill enginn, hvorki einstaklingarnir sem í hlut eiga né aðrir.