145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

15. mál
[15:21]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér hefur orðið ágætisumræða um ýmsa þætti húsnæðismála í tengslum við þessa tillögu til þingsályktunar um bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum sem er flutt af þingmönnum Samfylkingarinnar. Það er svo sannarlega tilefni til að taka húsnæðismálin hér upp og ræða þau. Það hefur kannski of lítið gerst í þeim efnum hjá okkur alveg frá hruni má segja og sérstakt áhyggjuefni að þrátt fyrir mikið nefndarstarf og tillögur á árunum 2011–2013 hafa enn ekki litið dagsins ljós í sjálfu sér neinar breytingar í þessum efnum hvað varðar fasteignamarkaðinn, möguleika til að byggja, leigja eða borga af húsnæði. Aðgerðir núverandi ríkisstjórnar hafa snúið að fortíðinni, samanber hina frægu svokölluðu skuldaleiðréttingu, en minna farið fyrir því að menn tækjust á við ástandið eins og það er á fasteignamarkaðnum í dag.

Flestir þeir töluliðir sem hér eru lagðir til, níu til samans, hafa auðvitað verið til umræðu og skoðunar á undanförnum árum. Mikil vinna hefur snúið að því að útfæra t.d. nýtt samræmt húsnæðisbótakerfi þar sem leigjendur og þeir sem eru að reyna að eignast sitt húsnæði eru meira jafn settir en enn þá bíðum við eftir því að efndir verði á áformum um þær úrbætur.

Einnig er hér tillaga um að undanþiggja frá fjármagnstekjuskatti tekjur einstaklinga vegna útleigu einnar íbúðar. Það er í sjálfu sér alls ekki galin hugmynd að draga mörkin þar. Nú hefur núverandi ríkisstjórn boðað skref um að breyta afslættinum sem verið hefur við lýði hvað varðar húsaleigutekjur sem stofn til fjármagnstekjuskatts úr 70% í 50%. Það eru auðvitað skref í sömu átt. Ég get vel fallist á þá hugmyndafræði að gera greinarmun á útleigu einnar íbúðar, segjum að menn eigi íbúð í stærra húsi eða séu tímabundið í burtu og vilji leigja eina íbúð, og síðan öðrum aðilum sem hafa það að atvinnustarfsemi að leigja út húsnæði í stórum stíl. Það er allt annað mál og kæmi að mínu mati ekki til mála að meðhöndla fjármagnstekjur slíkra aðila, lögaðila eða slíkra aðila, með öðrum hætti en almennt gengur og gerist, þó þannig að um þær gildi það sama og aðrar að þær myndi einungis 70% eða þá á næsta ári 50% stofn til greiðslu fjármagnstekjuskatts.

Þriðji töluliður gengur út á að grípa til aðgerða sérstaklega í þágu þeirra sem eru að kaupa íbúð eða búseturétt í fyrsta sinn. Það held ég að sé þáttur sem menn eigi náttúrlega að sjálfsögðu að horfa mjög til, hvernig menn greiða götu fólks inn á húsnæðismarkaðinn í fyrstu umferð. Ef til vill þarf líka að hafa í huga jafnræði á milli þeirra sem eru einfaldlega að flytja að heiman og í leigu í fyrsta sinn því það er stórt skref fyrir ungt fólk sem hefur búið í foreldrahúsum og er á fullri ferð í gegnum nám, reynir að afla sér tekna á sumrin eða jafnvel meðfram námi og nær kannski ekki nema rétt rúmlega endum saman eins og við þekkjum sjálfsagt mörg þó að það búi án endurgjalds í heimahúsum. Það er mjög stór þröskuldur að reyna að fara út á leigumarkaðinn fyrir t.d. ungt par. Hvers vegna skyldi ekki vera komið til móts við húsnæðiskostnað þeirra rétt eins og annarra sem væru að kaupa sér húsnæðisrétt eða íbúð? Þarna held ég að við hefðum betur gert og löngu fyrr ráðstafanir til að styðja við bakið á ungu fólki þegar það stígur þetta fyrsta stóra skref. Það er svo sem aldeilis ekki nýtt undir sólinni, hér hafa menn rifjað upp sparimerkin á sínum tíma og ýmsar slíkar ráðstafanir sem einhvern veginn þynntust út og urðu að engu hjá okkur Íslendingum eins og svo margt fleira. Það er eiginlega alveg ævintýralegt þegar maður fer yfir það í huganum hvernig við fórum aftur á bak í þessum efnum á hverju sviðinu á fætur öðru á löngu árabili. Það var ekkert annað en nýfrjálshyggja og hægri mennska þegar menn töldu sér trú um að markaðurinn mundi leysa öll þessi mál og lögðu niður félagslegan hluta húsnæðislánakerfisins, Byggingarsjóð verkamanna og aflagður var sérstakur stuðningur eða skattalegt hagræði fyrir ungt fólk til að undirbúa húsnæðisöflun sína og þar fram eftir götunum.

Við Íslendingar erum náttúrlega brennd af biturri reynslu vegna mistaka okkar í þessum málaflokki og hún er ekki bara tengd hruninu og því sem þar gerðist. Nægir að minna á 9. áratuginn og misgengið sem þá var, Sigtúnshópinn og allt það þannig að okkur hefur gengið seint að læra og bæta ráð okkar í þessum efnum. Þegar maður lítur yfir okkar ágæta íslenska samfélag þá vegnar okkur yfirleitt vel og prýðilega á mjög mörgum sviðum, okkur hefur tekist að byggja hér upp ágætis velferðar- og velmegunarsamfélag og erum stolt af mörgum þáttum þess en satt best að segja er auðvitað einn málaflokkur þar sem okkur hafa verið herfilega mislagðar hendur, kannski er rétt að segja tveir, þ.e. stjórn efnahagsmála, hagstjórn og húsnæðismálin, íbúðamálin. Þess vegna verðskuldar þessi málaflokkur svo sannarlega að honum sé sinnt.

Örfá orð um byggingarreglugerðina sem reyndar hefur verið rædd hér. Ég hef haft áhyggjur af umræðum um hana og við vorum að ræða í velferðarnefnd Alþingis í gær við Samtök aldraðra og við hjúkrunarfræðinga sem sinna öldruðum og húsnæðismálin bar þar iðulega á góma. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst undarlegt hvað umræðan hefur fengið að vera einhliða oft á tíðum þar sem menn hafa nítt niður nýja byggingarreglugerð, fundið henni allt til foráttu, kennt henni um alla skapaða hluti og notað hana sem blóraböggul og skálkaskjól. Hvaða innstæður eru fyrir slíku? Þær eru sáralitlar. Menn gleyma alveg hinni hliðinni, hversu mikilvægt það er þegar verið er að hanna og byggja húsnæði til langrar framtíðar að það sé gert í samræmi við þær kröfur sem eðlilegt er, að húsnæði sé almennt aðgengilegt fyrir alla.

Ég get fallist á það að þegar byggðar eru námsmannaíbúðir sé kannski hægt að víkja frá því að þær þurfi allar, hver og ein, að uppfylla þessar kröfur vegna þess að þar er um að ræða húsnæði fyrir ungt fólk í námi og sem betur fer er náttúrlega langstærsti hluti þess án nokkurra hamlana eða fötlunar og það flytur síðan út úr því húsnæði. En að sjálfsögðu þarf að vera fullnægjandi hátt hlutfall af íbúðum í boði í því húsnæði líka þannig að fötluðum námsmönnum sé ekki mismunað að þessu leyti. En þegar byggt er á almennum markaði, hvort heldur eru íbúðir til endursölu eða íbúðir til leigu, þá verðum við að hugsa langt fram í tímann.

Við skulum hafa í huga þá staðreynd að aldraðir á Íslandi í dag eru yfir 40 þúsund, 67 ára og eldri. Þeir eru um það bil 12% þjóðarinnar í dag en verða 50 þúsund og 70 þúsund og 80 þúsund og 100 þúsund áður en mjög langur tími líður. Þeir fara í 15% og 20% og síðan 20% eða meira af íbúafjölda landsins miðað við ætlaða lýðfræðilega þróun og þessi tími er ekkert óskaplega langt fram undan. Núna er hin svokallaða „baby boom“-kynslóð, ef maður má sletta hérna, virðulegur forseti, ég lofa að gera það ekki aftur, þ.e. barnakynslóðin mikla, að komast á eftirlaunaaldur, sumir stærstu árgangar Íslandssögunnar. Það mun fjölga mjög hratt í þeim hópi og þá er gríðarlega mikilvægt að við höfum hann í huga og einnig þann sem stríðir við einhvers konar fötlun og húsnæðið sé þannig hannað í grunninn að það sé aðgengilegt og boðlegt fyrir alla. Hvaða staða kemur annars upp? Það verður þá miklu þrengra um á markaðnum með það húsnæði sem er þannig hannað.

Hvað ræðum við í dag? Við ræðum til dæmis um blokkirnar sem voru byggðar þriggja og fjögurra hæða án lyftu. Er það ekki vandamál í dag? Jú. Eru menn ekki að velta fyrir sér hvort hægt sé að breyta því húsnæði kannski að sænskri fyrirmynd með því að byggja lyftustokka utan á húsin vegna þess að það mætir ekki kröfum tímans? Ætlum við þá í dag árið 2015 að veita stórkostlegan afslátt á því að húsnæðið mæti kröfum dagsins, hvað þá framtíðarinnar? Ég skil satt best að segja ekki hvernig menn missa sig stundum í æsing út af því að þarna sé verið að fara offari. Hér var nefnt að kannski mætti reikna 1–2% byggingarkostnaðarins yfir á það að uppfylla þessar kröfur. Það finnst mér alveg ótrúlega lítið og sjálfsagt mál að gera það.

Ég ætlaði að víkja aðeins að húsnæðismálum (Forseti hringir.) á landsbyggðinni en tími minn er af einhverjum undarlegum ástæðum búinn þannig að ég á það bara inni að ræða stöðu mála þar, en það verðskuldar svo sannarlega líka umræðu.