145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

styrking leikskóla og fæðingarorlofs.

16. mál
[16:05]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Aðeins nokkur orð um það mikilvæga mál sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir hafði hér framsögu um áðan. Þetta er nánast framhaldsmál frá fyrra máli og snýst um gríðarlega mikilvægan þátt. Það var ágætt sem hv. þingmaður sem talaði á undan kom að, þetta er í senn menntamál, samfélagsmál og kjaramál og snýst um það hvernig við getum búið betur að ungu fólki í samfélaginu en líka búið betur að börnum í samfélaginu.

Það hefur talsvert vatn runnið til sjávar frá því leikskólinn var formlega viðurkenndur sem fyrsta skólastig og síðan leikskólar fengu sinn þátt í aðalnámskrá. Það var árið 1994 sem þeir voru viðurkenndir sem fyrsta skólastig og aðalnámskráin kom 1999. Síðan þegar sett voru lög um leik-, grunn- og framhaldsskóla á sama tíma árið 2007, sem tóku gildi 2008, var unnið að sameiginlegri aðalnámskrá fyrir öll skólastig með sameiginlegum inngangi sem sýnir það að við lítum auðvitað á leikskólann sem fyrsta þátt í menntun ungra barna. Langflest börn á Íslandi ganga í leikskóla, njóta leikskólanáms, þótt mörgum finnist leikskólanám kannski vera sérkennilegt hugtak því að það er auðvitað ekki nám í þeim hefðbundna skilningi að börnin sitji og læri fög, en þau læra gríðarmargt. Ég segi það gjarnan, verandi móðir þriggja barna sem öll hafa notið leikskólanáms, að ég er mjög þakklát fyrir það hve ríkan þátt leikskólar Reykjavíkurborgar hafa átt í uppeldi barna minna. Ég mundi vafalaust hafa farið á taugum í hvert skipti sem börnin klifruðu upp í klifurgrind ef þau hefðu ekki lært þetta á leikskólum, svo dæmi sé tekið. Það er mjög margt í hreyfiþroska, málþroska og félagsþroska þar sem skiptir svo miklu máli að vera innan um fagfólk og vera innan um önnur börn og njóta nauðsynlegrar örvunar.

Það er gaman að segja frá því líka að foreldrar eru upp til hópa afar ánægðir með starf leikskólanna, a.m.k. þar sem ég þekki til, kannski vegna þess að þetta skólastig er enn þá tiltölulega ungt miðað við önnur skólastig í landinu og hefur fengið að mótast í umtalsverðu svigrúmi og faglegu frelsi. Það er mjög fjölbreytt starfið í leikskólum í þessu landi, ólíkum aðferðum er beitt, ólíkum kennsluaðferðum og fengist við ólík viðfangsefni. Það þykir mér allt til fyrirmyndar.

Það má þó gera betur, það er það sem þessi þingsályktun snýst um. Hún snýst í fyrsta lagi um að gera nauðsynlegar lagabreytingar til að styrkja stöðu leikskólans sem fyrsta skólastigsins, að leikskólar verði lögbundið verkefni sveitarfélaganna og þannig séð verði skylda þeirra staðfest til að reka leikskóla, en hún snýst einnig um að mikilvægt sé að gera áætlun til þess að leikskólar geti orðið gjaldfrjálsir.

Við erum með tíu ára skólaskyldu á Íslandi þar sem menntun er gjaldfrjáls þótt auðvitað sé rukkað fyrir skólamáltíðir og frístundastarf, sem er órjúfanlegur hluti af þeirri menntun fyrir langflest börn, en úr því að höfum þegar viðurkennt leikskólastigið formlega sem fyrsta skólastig eigum við að stefna á að gera leikskólann gjaldfrjálsan.

Það hefur verið áherslumál Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs allt frá árinu 2003 og það tel ég í senn vera fullnustu þess að við viðurkennum skólastigið sem fyrsta skólastig, að það sé gjaldfrjálst og við lítum á það sem eðlilegan þátt í grunnþjónustunni. Það er líka gríðarleg kjarabót fyrir foreldra sem greiða 30 þús. kr. á mánuði fyrir eitt barn í leikskóla. Vissulega er systkinaafsláttur og annað slíkt en ég held að um slíka kjarabót mundi muna verulega fyrir fjölskyldur um land allt.

Síðan snýst tillagan um að lengja fæðingarorlof í 18 mánuði, eins og lagt er til hér, og að tryggja það að börn fái leikskólapláss beint að loknu fæðingarorlofi. Það er ekkert launungarmál að þetta er líklega eitt streitumesta tímaskeið hjá mörgum fjölskyldum ungra barna, sá tími þegar fæðingarorlofinu sleppir og óvissa ríkir um hvað tekur við. Þetta er nokkuð sem nánast allir ganga í gegnum, óvissan þar sem verið er að brúa bilið með einum eða öðrum hætti. Með því að tryggja það að leikskólanám taki við að loknu fæðingarorlofi, fyrir utan nauðsyn þess að lengja fæðingarorlofið því að níu mánaða fæðingarorlof er auðvitað ekki nægjanlegt ef við viljum t.d. tryggja að fyrsta árið geti barnið notið samvista við báða foreldra sína, held ég að við mundum tryggja miklu meiri samfellu í lífi barnafjölskyldna, barna og foreldra þeirra. Við mundum vera að vinna að því að gera hag barnafjölskyldna og ungs fólks á Íslandi betri, sem veitir ekki af miðað við búsetuþróun hér á landi þar sem við sjáum búferlaflutninga núna upp á síðkastið þar sem fleiri flytja af landinu, ungt háskólamenntað fólk, á missirunum þar á undan. Það er áhyggjuefni. Við eigum að vera að velta því fyrir okkur hvernig við getum búið betur að þessum kynslóðum.

Það eru ekki bara húsnæðismálin, sem voru til umræðu áðan, sem eru gríðarlega mikilvæg heldur líka hvernig við stöndum að því að tryggja þessa grunnþjónustu. Þetta er því löngu tímabært. Ég vona, í ljósi þess að hér náðist ágætissamstaða um forvera þessarar tillögu þar sem kallaðir voru til aðilar sveitarfélaga og hins opinbera til að fara yfir þau mál, að okkur muni lánast að ná samstöðu um þessa tillögu líka.

Hér er lagt til að fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis, velferðarráðuneytis, fjármálaráðuneytis og innanríkisráðuneytis, ásamt fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga, Félags leikskólakennara og Vinnumálastofnunar, sem fer auðvitað með Fæðingarorlofssjóð, skipi þennan starfshóp og hann muni leggja tillögur til mennta- og menningarmálaráðherra sem leggi tillögur fyrir Alþingi eigi síðar en 1. maí 2016. Við vitum að tímasetningar geta stundum verið sveigjanlegar í svona málum en þetta er gríðarlegt hagsmunamál, bæði til þess að efla menntun í landinu og til þess að bæta kjör barnafjölskyldna. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að ef þetta yrði raunin, að við værum að horfa upp á gjaldfrjálsan leikskóla, væri það umtalsvert meiri kjarabót en til dæmis leiðréttingin margfræga fyrir unga fólkið í landinu. Ef við skoðum mánaðarlegar greiðslur, hverjar þær yrðu fyrir þennan hóp, er ég ekki í nokkrum vafa um að þetta mundi gagnast þeim hópi miklu betur einmitt á því skeiði þar sem fólk er að koma undir sig fótunum. Ef við viljum í raun og veru standa að slíkum kjarabótum ættum við svo sannarlega að horfa til þessa máls.

Svo nefni ég aftur lengingu fæðingarorlofsins sem ég tel löngu tímabæra. Þó að fæðingarorlofslögin frá árinu 2000 hafi verið mikilvægt og gott skref — ég vona að ég fari rétt með ártalið þegar ég segi 2000, já, ég fer rétt með ártalið, ég fær hér höfuðhneigingu úr sal — þá er það svo að það eru liðin 15 ár síðan og á þeim tíma höfum við fremur horft upp á það að fæðingarorlof hefur verið að lengjast í nágrannalöndum okkar en við sitjum hér enn með níu mánuði. Það er því ekki nokkur vafi á að þetta er orðin löngu tímabær aðgerð sem hér er lögð til og verður að ráðast í hið fyrsta.