145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

styrking leikskóla og fæðingarorlofs.

16. mál
[16:39]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mér líst vel á þessa þingsályktunartillögu og vona að hún fái framgang hér. Mér finnst barnafólk og sérstaklega ungt barnafólk vera hagsmunahópur sem gleymist, það er hópur sem á ekki einhver sterk hagsmunasamtök sem passar að senda tölvupósta á þingmenn og halda fram hagsmunum hans. Varðandi kerfið hér á Íslandi hefur mér fundist við vera með mjög góða leikskóla, en fram að því reiða foreldrar sig á dagforeldra. Ég kynntist því fyrir um 15, 20 árum úti í Danmörku, það er orðið svo langt síðan, að þar var kerfið þannig að dagforeldrar voru fimm í hóp og ef dagforeldri varð veikt eða barn dagforeldra varð veikt var börnunum skipt á hina dagforeldrana. Þetta gerði það að verkum að ég sem var í vinnu og námi missti aldrei úr dag. Nóg er nú samt þegar börnin verða veik, sem er oft og iðulega, en þegar þetta er orðið þannig að það þarf að vera með barnið heima vegna þess að dagforeldrið er veikt eða vegna þess að barn dagforeldris er veikt geta þetta orðið ansi margir dagar og mjög lítið öryggi í þessu kerfi. Ég skil ekki að við séum hérna á Íslandi 2015 enn þá með svona lélega þjónustu fyrir unga foreldra. Þess vegna er mikilvægt að við getum bæði lagað það og tryggt að börn komist fyrr inn á leikskóla.

Það sama segi ég um fæðingarorlofið, það er mikilvægt að styrkja það. Við getum verið stolt af því á Íslandi að hafa komið á fót kerfi þar sem feður voru í rauninni skikkaðir í orlof, en gerðu það vonandi flestir af fúsum og frjálsum vilja, en það er gríðarlega mikilvægt að nægir peningar séu í Fæðingarorlofssjóði.

Auðvitað væri frábært ef leikskólinn væri gjaldfrjáls. Ég held að það sé kannski í fæstum löndum þannig, en gjaldið má aldrei vera íþyngjandi. Það er strax betra að vera með barn á leikskóla en hjá dagforeldri hvað varðar upphæðirnar sem þarf að borga. En auðvitað væri það mjög gott. Ég er síðan alveg til í umræðuna um það einhvern tímann síðar, hún á kannski ekki heima hér, hvort það sé endilega raunhæft að allt starfsfólk á leikskólum hafi fimm ára háskólamenntun. Ég hef verið mjög efins um það og veit eiginlega ekki alveg hvernig þetta gerðist og hvort þetta hafi verið til framdráttar. Ég held ekki. Mér finnst við vera farin aðeins of mikið út í háskólanámsvæðingu á mörgum sviðum. Ég held að endurmenntun og gott grunnnám geti skilað miklu. Ég held að þetta sé ekki endilega þjóðhagslega hagkvæmt. Ég ætla ekki að gera lítið úr háskólanámi, en þetta er viðkvæm umræða sem ég held samt að við þurfum að taka, vegna þess að þetta getur líka staðið því fyrir þrifum að við getum lækkað leikskólaaldurinn og jafnvel lækkað leikskólagjöldin.

Að öðru leyti er ég mjög jákvæð gagnvart þessu eða bara að öllu leyti jákvæð. Ég tel reyndar að það sé mjög mikilvægt að fá einhvern verðmiða á þetta. Við höfum verið í raun, held ég, að missa fólk til útlanda vegna þessa. Ég upplifði það á eigin skinni þegar ég var úti hvað það var eins og að koma á allt aðra plánetu varðandi það að vera með börn, bæði barnabætur, aðgengi að leikskólum og dagmæðrum, aldrei lokað á leikskólanum, sem mér fannst reyndar mjög gott, maður gat tekið sitt sumarfrí á sumrin og þegar börnin voru veik og þar fram eftir götunum. Þannig að jafnvel þótt það sé einhver kostnaður fylgjandi þessu tel ég að ungt barnafólk eigi það inni hjá okkur því það er allt of lítið gert fyrir það á Íslandi.