145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

18. mál
[17:06]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég er á svipuðum slóðum og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna um þetta frumvarp sem er augljóslega heilmikið hugsað og mikil vinna sem liggur þar að baki.

Mig langar að leyfa mér að fara svolítið á byrjunarreit með spurningu til hv. þingmanns og spyrja um þörfina á þessari löggjöf. Ég held að það sé alltaf mikilvægt fyrir okkur þegar við erum að mæla fyrir þingmálum, sama hvort það eru frumvörp eða þingsályktunartillögur, að við veltum fyrir okkur hvað það er sem kallar á breytingar. Hvað er það í núverandi kerfi sem gerir það að verkum að þingflokkur Pírata sér sig knúinn til þess að setja þetta mál í forgang? Þetta kannski í fyrsta lagi. Hver er þörfin í raun? Hvaða réttarbót er þarna á ferðinni? Að hvaða leyti værum við að horfa á betra samfélag? Ég held að við hv. þingmaður deilum áhuga á því að fólk fari vel með vald og að það sé þannig að við glötum ekki trúnaði við umbjóðendur okkar með því að fá vald, sama hvort það er löggjafarvald eða framkvæmdarvald eða hvaða vald það er. Hvernig erum við með þessu móti að treysta betur stöðu og rétt almennings frammi fyrir valdi?