145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

18. mál
[17:11]
Horfa

Flm. (Ásta Guðrún Helgadóttir) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að þetta sé fyrsta skrefið eða eitt af þeim skrefum sem við þurfum að taka til þess að losna við þetta gamla Ísland sem hv. þingmaður talaði um þar sem við leggjum þetta í dóm kjósenda og lofum öllu fögru. Sú tíð er liðin að það sé talið ásættanlegt. Það er komið að því að stíga þetta skref. Þetta er nauðsynlegt skref til þess að ráðherrar og aðrir fari að vanda sig betur, bæði í málflutningi sínum og gjörðum. Ég hugsa að þetta geti líka spornað gegn því að ráðherrar taki þátt í þeim skotgrafahernaði sem hefur einkennt íslensk stjórnmál. En fyrst og fremst held ég að þetta sé skref til þess að segja bless við gamla íslenska valdahöfðingjasamfélagið sem virðist stundum ráða ríkjum á Alþingi svo að það birti til fyrir þetta blessaða nýja Ísland sem okkur var lofað eftir kosningar árið 2009. Sannleiksskylda ráðherra er að mínu mati nauðsynlegt skref til þess að búa til betra íslenskt samfélag, einfaldlega af því að það hefur sýnt sig að núverandi fyrirkomulag er ekki nægilega sterkt eða nægilega gott og veitir ekki nægilega mikið aðhald.