145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

loftslagsmál.

[15:09]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég tek undir síðustu athugasemdir hv. þingmanns. Íslendingar ætla, eins og tilkynnt var 30. júní, að taka þátt í hinu svokallaða regnhlífarmarkmiði með EES-löndunum um að draga úr losun þessara lofttegunda um 40%. Þá er brýnt að hafa í huga að það er gríðarlega mikilvægt að við drögum úr notkun jarðefnaeldsneytis eins og kostur er, eða drögum að minnsta kosti úr aukningu á notkun þess, en framleiðum meira af endurnýjanlegri grænni orku. Þar stendur engin þjóð sig betur en Íslendingar og þess vegna hlusta menn þegar Íslendingar ræða þessi mál. Þar af leiðandi tel ég að við getum haft mjög gott innlegg í París, til viðbótar við það að taka þátt í þessu regnhlífarmarkmiði, því að á sviði umhverfismála er engin þjóð sem stenst Íslendingum snúning. Við getum þar af leiðandi verið góð fyrirmynd fyrir aðrar þjóðir heims.

Ég tek undir með hv. þingmanni að næsta skref í því, eitt af stóru skrefunum sem bíða okkar nú, er að skipta út orku í samgöngum. Við byrjum þá að sjálfsögðu (Forseti hringir.) á bifreiðum, en eins og dæmi er um er ekki langt í að hægt verði að ráðast í sams konar átak í skipum og jafnvel í flugvélum.