145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

málefni hælisleitenda.

[15:18]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla að höggva í sama knérunn og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson. Ég verð að segja að ég harma að svör ráðherra hafi ekki verið skýrari og afdráttarlausari við fyrirspurn hans. Hæstiréttur staðfesti í síðustu viku ákvörðun Útlendingastofnunar og innanríkisráðuneytis sem hafði hafnað að taka umsóknir tveggja manna um hæli til efnismeðferðar hér á landi.

Hér er ekki eingöngu um að ræða þessa tvo menn heldur eru fleiri einstaklingar sem bíða nú í fullkominni óvissu um afdrif sín og eiga á hættu að verða reknir í burtu héðan af landi. Ég ætla eins og hv. þingmaður sem talaði á undan mér að vitna í svar hæstv. ráðherra við fyrirspurn hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur 17. september. Þar sagði ráðherra orðrétt:

„Grikkland er ekki talið öruggt land. Það á einnig við um Ítalíu og Ungverjaland, þau eru til viðbótar ekki talin örugg lönd. Það er ekki óhætt að senda fólk til baka þangað.“

Þetta er mjög skýrt orðað hjá ráðherra og ég spyr hana: Ætlar hún ekki að fylgja þessum orðum sínum eftir með stjórnvaldsákvörðun á sama tíma og Evrópusambandið hefur ákveðið að flytja allt að 160 þúsund hælisleitendur frá Grikklandi, Ungverjalandi og Ítalíu vegna þess að þar er svo mikill fjöldi af hælisleitendum að þeir er ekki taldir öruggir þar? Ætlum við þá að halda áfram að senda fólk, reka í burt héðan í raun, út í algjöra óvissu? Spurning mín til hæstv. ráðherra er um þessi skýru orð hennar hér í þinginu 17. september, mun hún ekki fylgja þeim eftir með stjórnvaldsákvörðun um að enginn verði rekinn burtu til þessara þriggja landa?