145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

málefni hælisleitenda.

[15:23]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er ég ekkert að ræða málefni einstakra einstaklinga. Ég tók sem dæmi hæstaréttardómana tvo sem féllu í síðustu viku en benti jafnframt á að það væru fleiri einstaklingar sem byggju við algjöra óvissu.

Það er gott að ráðherra vilji sýna ábyrgð en ég spyr þá: Hvað er ábyrgt við það að segja í þinginu á einum tíma að ekki sé óhætt að senda fólk til landa eins og Grikklands, Ítalíu og Ungverjalands og koma síðan nokkrum dögum síðar og segja að enn sé ekki ljóst hvort það eigi að gera almennt varðandi fólk? Óháð því hver staða fólks er hefur verið tekin sú ábyrga ákvörðun af Evrópusambandinu, sem glímir við miklu meira álag vegna þeirra flóttamannastrauma sem nú liðast yfir Evrópu, að flytja fólk frá þessum þremur ríkjum.

Ég hvet hæstv. innanríkisráðherra til að sýna sams konar ábyrgð og sýna mannúð gagnvart því fólki sem hefur komið hingað til okkar til að bjarga lífi sínu og limum og senda það ekki til baka til þessara ríkja.