145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

skipan hæstaréttardómara.

[15:30]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir þessi svör. Ég fagna því að hún hyggist beita sér fyrir þessu. Ég á erfitt með að trúa því að með alla þá fjölbreyttu flóru sem við eigum hér af hæfu fólki, hvernig svo sem það er metið á hverjum tíma, að það standist nokkra skoðun að það geti aldrei farið svo að þeir sem séu á endanum metnir hæfastir í þessu ferli séu konur. Ég neita að trúa því að við búum við þann raunveruleika að einungis karlmenn standi alltaf upp úr sem einhvers konar sigurvegarar í svona matsferli. Ég hvet ráðherrann áfram með ráðum og dáð til að breyta þessu vegna þess að ég held að þetta hafi mjög mikil áhrif á þá virðingu sem er borin fyrir Hæstarétti í samfélaginu og víðar. Mér finnst líka mikilvægt að við lítum til þess hér í þessum sal að halda áfram því sem er smám saman að vinnast, að jafna hér kynjahlutföll. Mér finnst það til háborinnar skammar árið 2015 að við skulum enn þurfa að standa í þessari baráttu. Á meðan svo er þá bara gerum við það.