145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

kostnaður vegna gjaldþrotaskipta.

[15:35]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhuga hennar á fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnað vegna gjaldþrotaskipta. Við erum í ráðuneytinu að leggja lokahönd á skriflegt svar við fyrirspurn hv. þingmanns þar sem farið er í gegnum umsóknirnar og ástæður synjunar. Ég vonast til þess að geta dreift því núna í þessari viku.

Það er rétt, sem þingmaðurinn bendir á, að þetta mál er ekki á þingmálaskránni sem var dreift hér við upphaf þingsins. Við höfum hins vegar verið að vinna að málinu áfram, en það var ekki komið í þann búning að ég teldi rétt að setja það inn á þingmálaskrána eins og henni var dreift nú í haust. En ef við sjáum fram á að geta lokið þessu, meðal annars á grundvelli þeirra upplýsinga sem við höfum verið að afla okkur um ástæður synjunar, munum við að sjálfsögðu uppfæra þingmálaskrána í samræmi við það.

Í ljósi sameiginlegs áhuga okkar þingmanns á þessu máli vil ég segja að við höfum einmitt verið að huga að því hvað það er sem við getum gert til þess að koma til móts við þennan hóp. Það sem kemur í ljós við kannanir okkar er að um helmingur þeirra sem fá synjun fær hana á grundvelli þess að umboðsmaður skuldara telur að viðkomandi skuldari sé ekki búinn að nýta önnur greiðsluvandaúrræði sem eru til staðar og þá hjá umboðsmanni. Við erum núna að fylgja því eftir. Þá væri hugsanlega hægt að koma til móts við fólk með því að tryggja að það njóti þá annarra úrræða, sérstaklega greiðsluaðlögunar, til hjálpar í vanda.