145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

bifreiðastyrkir til hreyfihamlaðra.

175. mál
[15:47]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir síðustu orðin sem hér voru sögð. Það skortir nefnilega pólitíska forgangsröðun, ekki bara í þessu tiltekna máli er varðar styrki til hreyfihamlaðra til bifreiðakaupa og þess háttar, heldur í svo mörgu öðru þegar kemur að velferðarþjónustunni eins og við þekkjum. Það ræddu þeir þingmenn sem nú sitja í stjórn á síðasta kjörtímabili og fannst undarlegt að þá væri ekki hægt að bæta betur í við þennan málaflokk en raunin varð því að eins og við vitum þurftum við að takast á við eftirstöðvar hrunsins.

Hér er ítrekað verið að lækka tekjustofna þrátt fyrir að færð hafi verið rök fyrir því að þetta sé ekki rétti tíminn, sveitarfélögin segja okkur að þetta sé ekki rétti tíminn, aldraðir og öryrkjar segja okkur að þetta sé ekki rétti tíminn. Þess vegna segi ég enn og aftur og tek undir með þeim sem hér tala að vissulega er ánægjulegt að heyra að ráðherrann ætlar að auka eitthvað við málaflokkinn, væntanlega við 2. umr. fjárlaga, en það þarf að gera svo miklu betur. Nú árar betur í samfélaginu og þá skilur maður ekki að ríkisstjórn Íslands leyfi sér að koma fram með þessum hætti, þ.e. að lækka tekjustofna í staðinn fyrir að bæta í velferðarkerfið.