145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

bifreiðastyrkir til hreyfihamlaðra.

175. mál
[15:48]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil blanda mér inn í umræðuna því að ég hef iðulega tekið til máls þegar til umræðu hafa verið málefni sem snúa að aðgengi og þetta er svo sannarlega risamál þegar kemur að aðgengi. Það er nefnilega þannig að ekki er nóg að komast inn í einstakar byggingar heldur þarf fólk líka að komast á milli einstakra bygginga og við vitum öll hvernig almenningssamgöngukerfið er þegar kemur að hreyfihömluðu fólki. Það er einfaldlega þannig að gríðarlega margir hreyfihamlaðir einstaklingar verða að vera á breyttum einkabílum. Þeir eru gríðarlega dýrir og þess vegna finnst mér mjög dapurlegt að þrátt fyrir að starfshópur hafi verið að störfum sem skilaði mjög fínni skýrslu um stuðningskerfi til að auðvelda för hreyfihamlaðs fólks þá sé ekki meira mark tekið á þeirri vinnu en svo að þess sjáist ekki merki í fjárlagafrumvarpinu.