145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

notkun dróna.

136. mál
[15:56]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hér um það fyrirbæri sem drónar eru. Eins og kom fram hjá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur þá eru drónar að sjálfsögðu mannlaust loftfar sem getur verið fjarstýrt, forritað og gengið fyrir eigin skynjun að einhverju marki. Við vitum að drónarnir eru mikið notaðir nú orðið í Evrópu í borgaralegum tilgangi við öryggisskoðanir innviða, ljósmyndatöku og ýmis erindi sem koma upp vegna hamfara og þeir eru einnig notaðir úti í Evrópu, sjáum við, í landbúnaði.

Það hafa vaknað spurningar vegna víðtækari notkunar tækjanna. Það hafa vaknað spurningar um öryggi í loftrými, öryggi fólks á jörðu niðri og svo auðvitað það, sem hv. þingmaður kom hér að, spurningar um friðhelgi einkalífs fólks. Það er mikilvægt að ná jafnvægi milli þess ávinnings sem hafa má af þessum tækjum og þeim hömlum sem hugsanlega þyrfti að setja á notkun þeirra.

Lög um loftferðir heimila að settar séu sérreglur um ómönnuð loftför. Það þarf því ekki að setja sérstök lög til þess að fjalla um þetta mál. Það er hægt á grundvelli laganna að gefa út reglugerð um dróna og flygildi og ekki þörf, eins og ég segi, á lagasetningu.

Um þessar mundir er víða unnið að mótun reglna. Flugöryggisstofnun Evrópu kynnti nýlega drög að reglusetningu um ómönnuð loftför. Evrópureglur taka væntanlega gildi árið 2016 um þetta efni, en það hefur komið fram hjá Evrópusambandinu að fyrir atvinnureksturinn sé mikilvægt að reglur um dróna séu samræmdar milli landa rétt eins og að um annað flug sé að ræða.

Það er þannig varðandi þetta tiltekna mál hjá okkur að við erum komin með drög í hendurnar að reglugerð um dróna sem ég hef verið að horfa á. Eins og hér hefur komið fram er þetta mál sem er að þróast mjög hratt og maður þarf að velta fyrir sér hversu langt á að ganga með mikilli reglusetningu á þessu sviði. Sjálf hef ég ekki komið mér upp neinni grundvallarafstöðu í þessu máli sem hægt er að byggja skoðun á að öðru leyti en því að ég held að við setjum bara strax til kynningar á vef ráðuneytisins þau drög sem nú eru til í ráðuneytinu. Það verður gert í þessari viku.

Í þeirri reglugerð er við það miðað að það séu stærðarmörk á leyfisskyldu dróna, þyngdarmörk, 30 kg mörk, að ekki þurfi leyfi fyrir þeim sem eru undir þeim mörkum. Það eru ákvæði þarna um þéttbýli og návígi við hús, eitthvað líka varðandi önnur öryggissjónarmið, ég hygg að það sé nú líka eitthvað varðandi flugið. Það eru líka takmarkandi reglur gagnvart fangelsum, að ekki sé verið að fljúga með dróna að fangelsum. Þannig að það er svona ákveðin tilraun gerð í þessum reglugerðardrögum til að vera með einhvers konar umfang.

Ég held að næsta rétta skrefið sé að þetta komist til kynningar bæði meðal hagsmunaaðila og almennings. Í framhaldi af því verður tekin afstaða til þess hvort reglugerðin, í þeim búningi sem hún er í núna, sé heppileg til birtingar og afgreiðslu eða hvort gera þurfi einhverjar frekari breytingar á henni. Mér finnst að við eigum að gæta þess að stilla regluþörf okkar í hóf en þó þannig að við höfum mjög skýr friðhelgissjónarmið til grundvallar og að sjálfsögðu öryggissjónarmið líka þegar við lítum til þessara farartækja eða flygilda, ég veit ekki hvað maður á að segja. Ég get svo sem ekki bætt miklu við þetta á þessu stigi en ítreka það að ég boða þessi reglugerðardrög til birtingar.