145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

notkun dróna.

136. mál
[16:02]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég vil rétt eins og aðrir þakka fyrir þessa umræðu. Þetta mál kemur að sumu leyti svolítið aftan að okkur. Við höfum greinilega ekki tilbúna löggjöf í þetta.

Mig langaði til þess að nefna tvö álitamál sem þarna eru undir og ekki hafa verið nefnd í umræðunni áður. Það er kannski í fyrsta lagi sú umræða sem hefur verið uppi við endurskoðun náttúruverndarlaga að setja inn lagaheimild þar til þess að huga sérstaklega að truflandi áhrifum flygilda á náttúruverndarsvæðum. Það er eitthvað sem þarf að horfa til. Þá kemur hin hliðin á þeim peningi, ef svo má að orði komast, því að það hefur líka verið mikil umræða um það að þeir sem eru hreyfihamlaðir og bundnir við hjólastól geti einmitt notið náttúrunnar með hjálp dróna. Það er til marks um hversu snúin þessi umræða getur verið að það geta verið á henni ýmsar hliðar. Þegar þeir sem eru hreyfihamlaðir njóta náttúrunnar er það kannski truflandi fyrir einhverja aðra sem eru á staðnum og láta drónana fara í taugarnar á sér og þeir trufla þá náttúruupplifunina fyrir viðkomandi.