145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

fjárhagslegur stuðningur við öryrkja í framhaldsskólanámi.

129. mál
[16:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. 9. þm. Norðaust., Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, fyrir þessa fyrirspurn. Því er fyrst til að svara að öryrkjar njóta ekki beinna fjárhagsstyrkja frá hinu opinbera til að sækja nám í framhaldsskólum í dagskóla eða í fjarnámi. Hins vegar er ríki og sveitarfélögum skylt að veita ýmsa þjónustu samkvæmt lögum til að jafna rétt allra nemenda til náms í framhaldsskólum landsins og vil ég rekja nokkur dæmi þess sem koma öryrkjum til góða við að stunda nám til jafns við aðra nemendur framhaldsskóla.

Í lögum um námsstyrki, nr. 29/2003, er kveðið á um jöfnunarstyrki í 1. gr. að því leyti sem búseta veldur nemendum misþungum fjárhagsbyrðum eða efnaleysi torveldar þeim nám. Í sömu lögum segir í 3. gr. að veittir séu dvalarstyrkir, skólaakstursstyrkir eða sérstakir styrkir sem námsstyrkjanefnd er heimilt að veita efnalitlum nemendum. Þannig er lögð áhersla á að jafna stöðu nemenda til náms hvar sem þeir búa á landinu og hvort sem þeir búa við sterkan eða veikan efnahag. Í lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, er í 34. gr. kveðið á um að ráðherra geti gefið leyfi fyrir rekstri sérstakra námsbrauta fyrir fatlaða nemendur. Slíkar brautir, nefndar starfsbrautir, eru til staðar í flestum framhaldsskólum landsins og greiðir mennta- og menningarmálaráðuneytið fyrir rekstur brautanna með sérstöku framlagi sem veitt er samkvæmt umsóknum frá skólunum. Að auki greiðir ráðuneytið sérstakt framlag með fötluðum nemendum utan starfsbrauta samkvæmt umsóknum frá skólunum.

Ásókn í þjónustu af þessu tagi hefur aukist til muna á undanförnum árum og hafa framhaldsskólar lagt sig fram um að veita nemendum þjónustu við hæfi samkvæmt einstaklingsbundinni áætlun.

Ég vil einnig nefna að mennta- og menningarmálaráðuneytið greiðir fyrir táknmálstúlkaþjónustu nemenda sem þurfa á henni að halda í framhaldsskólum, óháð því hvaða nám þeir stunda.

Að lokum má benda á að ferðaþjónusta fatlaðra er rekin af sveitarfélögum landsins og eiga fatlaðir nemendur í framhaldsskólum rétt á akstursþjónustu til og frá framhaldsskólum samkvæmt reglum sem sveitarfélögin setja sér.

Að því sögðu má segja að hið opinbera hafi ríka skyldu til að veita nemendum stuðning og þjónustu við hæfi á framhaldsskólastigi og leitast er við að gera öllum nemendum jafn hátt undir höfði og nemendum öllum til hagsbóta.

Virðulegi forseti. Ég vil jafnframt bæta því við að ég tel að hin ágæta fyrirspurn hv. þingmanns veki okkur til umhugsunar um mál, sem hefur reyndar komið hér til umræðu áður, sem er samþættingin á annars vegar félagsþjónustu og hins vegar á þeim úrræðum sem menntakerfið býður upp á. Mörkin þarna á milli geta orðið nokkuð óljós. Ég tel að það kalli á að fram fari víðtækara samráð á milli þeirra sem eru í forsvari fyrir velferðar- og heilbrigðisþjónustuna annars vegar og okkar sem erum í forsvari fyrir menntakerfið hins vegar því að þarna er oft og tíðum um að ræða úrræði sem geta hentað mjög vel, sem geta m.a. dregið úr kostnaði í heilbrigðis- og velferðarkerfinu ef rétt og vel er staðið að málum í menntakerfinu. Þá kemur þetta auðvitað alltaf að því hvar við setjum fjármuni og hvernig við skipuleggjum starfið okkar hvað það varðar, þ.e. hvaða fjármuni við höfum til að verja í þessi mál. Ég tel að þá þurfi að horfa á heildarmyndina. Þetta er enn önnur áminning sem kom til okkar um þetta. Ég tel að við getum gert betur á þessu sviði og gæti nefnt nokkur dæmi í skólakerfinu þar sem væri mjög æskilegt að betra samstarf væri á milli þeirra sem eru í forsvari fyrir þá málaflokka sem ég nefndi og menntakerfisins.